Myndarlegur snjókomubakki er nú að myndast fyrir austan landið og mun hann ganga yfir Suður-og Austurland næsta sólarhringinn. Að sögn veðurfræðings er bakkinn væntanlegur inn á Austurland fyrir hádegi, hann mun svo færa sig yfir á Suðausturland undir kvöld og fer yfir á Suðurland fyrir miðnætti.
Gera má ráð fyrir talsverðri snjókomu meðan bakkinn fer yfir. Þá mun mögulega eitthvað snjóa á höfuðborgarsvæðinu í nótt en það verður væntanlega í litlu magni að sögn veðurfræðings. Borgin verður nefnilega í jaðri snjókomubakkans.
Annars er útlit fyrir norðan og norðaustan strekking og hvassara í vindstrengjum suðaustantil á landinu. Bjart veður sunnan heiða, en él norðanlands. Frostið verður á bilinu 0 til 7 stig og hlýjast verður syðst á landinu.
Veðrið mun svo róast á landinu á morgun. Síðdegis verður vindur orðinn meinlaus að sögn veðurfræðings og búið að létta til aftur á Suður- og Vesturlandi. Fyrir norðan og austan verða þá dálítil él á stangli. Þetta meinlausa veður helst síðan væntanlega áfram út miðvikudaginn.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á þriðjudag:
Austan og norðaustan 8-15 m/s, en 15-20 með suðurströndinni í fyrstu. Lítilsháttar él norðan- og austanlands, annars þurrt að kalla. Frost 0 til 7 stig, mildast syðst.
Á miðvikudag:
Norðaustan 8-13 og dálítil él, en léttskýjað sunnan heiða. Frost 2 til 8 stig.
Á fimmtudag:
Norðan 8-13 og él norðaustan- og austanlands. Hægari austlæg átt og léttskýjað um landið sunnan- og vestanvert. Áfram kalt í veðri.
Á föstudag:
Suðaustan 8-13 vestantil á landinu, skýjað og dálítil snjókoma allra vestast. Hægari breytileg átt annars staðar og víða bjart, en stöku él með austurströndinni. Frost um allt land, talsvert í innsveitum.
Á laugardag og sunnudag:
Líklega norðlæg átt með éljum fyrir norðan og austan, en bjart syðra. Kalt áfram.
Snjókomubakki fer yfir landið
Stefán Ó. Jónsson skrifar
