Landsréttur hefur kveðið upp úrskurð í tveimur málum sem tengjast rannsókn lögreglu á meiriháttar líkamsárás í heimahúsi í Bríetartúni í síðustu viku.
Að sögn ætlaðs brotaþola var hún tekin kyrkingartaki sem olli tímabundnu meðvitundarleysi.
Þetta staðfestir bráðabirgðalæknisvottorð réttarmeinafræðings og segir þar enn fremur að slík árás sé í það minnsta lífshættuleg. Rannsókn málsins er enn á frumstigi.
Karli og konu verður gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til föstudagsins 16. mars. Skulu þau sæta einangrunar á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.
Í úrskurðum Héraðsdóms Reykjavíkur segir að fallist sé á að hin kærðu séu undir rökstuddum grun um að hafa framið alvarlegt brot sem fangelsisrefsing er lögð við.
Farið er fram á gæsluvarðhald yfir fólkinu þar sem ætla megi að þau muni geta torveldað rannsókn málsins, svo sem með því að hafa áhrif á vitni eða koma undan gögnum, fái þau að ganga laus.
Karlinn sem handtekinn var neitar alfarið sök. Konan viðurkennir hins vegar að hafa lent í átökum við ætlaðan brotaþola þar sem hnífar koma við sögu.
