Hin nýja treyja íslensku landsliðanna í knattspyrnu var kynnt í gær og fylgdust þúsundir Íslendinga spenntir með beinni útsendingu frá viðburðinum. Nokkur ánægja virðist vera með treyjuna ef marka má óformlega könnun Vísis, rúmlega helmingur aðspurðra segist kátur með hönnunina.
Hönnuðurinn að baki treyjunni er ítalskur starfsmaður Errea og því ljóst að öllum hugmyndum um hönnunarsamkeppni var stungið undir stól. Ef marka má lektorinn virðast þær þó hafa verið komnar í ferli. Á Facebook-síðu sinni segir Linda að Errea hafi fengið hana til að skrifa samkeppnislýsingu og velja hönnuði til að taka þátt í samkeppninni. Hún hafi því haft samband við þrjá hönnuði sem að hennar sögn hafa allir komið að hönnun íþróttafatnaðar, en það ku vera heilmikil vinna.
Því hafi Lindu ekki verið skemmt þegar Errea tjáði henni að greiddar yrðu 100 þúsund krónur fyrir vinningstillöguna og 30 þúsund fyrir aðrar innsendar tillögur.
Sjá einnig: „Treyjan á að endurspegla kraftinn sem býr innra með þjóðinni“
„Ég mótmælti þessum upphæðum sem mér fannst niðurlægjandi fyrir hönnuði og á endanum hækkaði fyrirtækið upphæðirnar í 150/50 þús,“ segir Linda sem hafði sent út formlega boð til viðkomandi hönnuða um þátttöku í samkeppninni. Að hennar sögn sendi hið minnsta einn hönnuður inn tillögu en hún þekki þó ekki til heildarfjölda tillagna.

Sjónvarpsmaðurinn Egill Helgason segir til að mynda að um „fáránlegar upphæðir“ sé að ræða og tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens er jafn gáttaður.
Halla Helgadóttir, framkvæmdastjóri Hönnunarmiðstöðvar, leggur jafnframt orð í belg og segir að hönnuðir eigi einfaldlega ekki að taka þátt í keppnum þar sem greiðslur eru lágar. „Samkeppnir eru og eiga alltaf að vera dýrari leið til að fá niðurstöðu heldur en að leita til eins hönnuðar,“ segir Halla og vísar til samkeppnisregla sem Hönnunarmiðstöð hefur látið útbua.
„ Í þeim keppnum eru verðlaun oft á bilinu 1-2 milljónir enda eru margir fagmenn kallaðir til leiks og samkeppnir oftast leið til að beina sjónum að ákveðnu viðfangsefni og vekja umtal,“ bætir framkvæmdastjórinn og segir að það hefði verið „mjög áhugavert ef Knattspyrnusamband Íslands hefði nálgast þetta verkefni af sama stórhug og annað sem varðar þátttöku Ísland í EM og HM.“
Að sama skapi hefði henni þótt mjög við hæfi að kynna íslenskan landsliðsbúning á HönnunarMars, sem fer fram þessa dagana í tíunda skipti.
Vísir hefur sent fyrirspurn á Þorvald Ólafsson, eiganda Errea á Íslandi, vegna málsins. Færslu Lindu má sjá hér að neðan