Erlent

Þúsundir flúðu Austur-Ghouta

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Flestir fóru fótgangandi en margir fengu sæti í rútum, eins og þessi drengur hér.
Flestir fóru fótgangandi en margir fengu sæti í rútum, eins og þessi drengur hér. Vísir/Getty
Þúsundir almennra borgara flúðu Austur-Ghouta í Sýrlandi í gær. Fór fólkið fótgangandi út af svæðinu. Svo margir hafa ekki flúið svæðið á sama degi frá því stjórnarher Bashars al-Assad, forseta Sýrlands, setti aukinn þunga í sókn sína í febrúar. Reuters greindi frá.

„Við höfðum setið föst niðri í kjallara lengi og þorðum ekki að koma út. Við gátum ekki verið hér lengur. Hér er enginn matur,“ sagði einn hinna flúnu við Reuters í gær í útjaðri bæjarins Hammouriyeh.

Annar maður, Amer al-Shourbaji, hafði svipaða sögu að segja. Sagði hann ekkert vatn í Austur-Ghouta, ekkert rafmagn og enga menntun fyrir börn sín.

„Á hverjum degi flýja um 800 manns,“ hafði rússneski miðillinn RIA eftir rússneska herforingjanum Vladímír Zolotúkhín. Rússar eru helstu bandamenn Assad-stjórnarinnar. Samkvæmt eftirlitssamtökunum Syrian Observatory for Human Rights hafa að minnsta kosti 12.500 nú flúið svæðið og haldið inn á yfirráðasvæði stjórnarliða.

Enn eru um 400.000 almennir borgarar innlyksa í Austur-Ghouta en stjórnarherinn nálgast markmið sitt um að taka svæðið. Hefur hann nú þegar klofið yfirráðasvæði uppreisnarmanna í tvennt. Nærri þúsund hafa fallið í linnulausum árásum Assad-liða.




Tengdar fréttir

Tókst aftur að flytja særða

Á þriðja tug almennra borgara, sem þurftu nauðsynlega að komast undir læknishendur, tókst í gær að flýja Austur-Ghouta í Sýrlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×