Gular viðvaranir eru í gildi á Suður- og Suðausturlandi og er varað við staðbundnum stormi syðst sem og staðbundnum stormi við Öræfajökul. Er því beint til vegfarenda að sýna aðgát, sérstaklega þeir sem eru á bílum sem taka á sig mikinn vind, til dæmis rútur.
Í viðvörun vegna storms sunnanlands segir á vef Veðurstofunnar að búast megi austan og norðaustan við 18 til 23 metrum á sekúndu undir Mýrdals-og Eyjafjallajökli og að vindhviður þar geti verið um eða yfir 30 metra á sekúndu. Þá er einnig búið við lítilsháttar éljum og gæti skafrenningur því orðið til trafala.
Svipað er svo upp á teningnum vestan- og sunnan undir Öræfajökli þar sem spáð er svipað miklum vindstyrk og svipað sterkum vindhviðum.
Veðurhorfur í dag og næstu daga eru annars þessar:
Austan- og norðaustanátt, víða 8-13 m/s, en 15-23 syðst á landinu og í Öræfum fram eftir degi og aftur síðdegis á morgun. Skýjað með köflum um landið vestan- og norðanvert, en skýjað og dálítil él eða slydduél suðaustan- og austanlands.
Bætir í úrkomu síðdegis snjókoma eða slydda í kvöld en síðan rigning á láglendi. Allvíða frostlaust yfir daginn á Suður- og Vesturlandi, annars frost að 10 stigum, kaldast í innsveitum fyrir norðan. Hlýnar í flestum landshlutum á morgun, og hiti 1 til 6 stig en áfram vægt frost á Norðurlandi og dálítil él um tíma.
Á miðvikudag:
Austan- og norðaustanátt, víða 8-15 m/s. Slydda eða rigning með köflum, einkum sunnan og austanlands og hiti 1 til 6 stig. Dálítil snjókoma um tíma norðantil á landinu og vægt frost þar.
Á fimmtudag:
Austlæg átt 5-10, en 10-15 með suðurströndinni. Lengst af rigning en úrkomulítið á Norðurlandi. Hiti 2 til 8 stig, mildast syðst.
Á föstudag og laugardag:
Fremur hæg suðaustlæg eða breytileg átt. Skýjað víðast hvar og dálítil væta en úrkomulítið norðaustanlands. Hiti breytist lítið.
