Í dag og á morgun er spáð austan- og norðaustanáttum, allhvössum eða hvössum við fjöll suðustan til, en annars mun hægari. Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar.
Þar segir einnig að úrkoma verði með minnsta móti, ef þá nokkur, nema stöku skúrir eða él á Suðausturlandi og Austfjörðum. Þar mun hiti einnig stíga upp fyrir frostmark að deginum. Annars má reikna með frosti niður í 10 stig inn til landsins. Að öllum líkindum fer að hlýna þegar líður á vikuna, en þá má einnig búast við vætu syðra, sem án efa verður kærkomin eftir langa þurrkatíð á þeim slóðum.
Veðurhorfur á landinu
Austan og norðaustan 8-13 m/s, en 13-20 við fjöll SA-til, hvassara þar um tíma í nótt og fram á morgun. Víða bjartviðri, en skýjað með köflum og stöku skúrir eða él SA-lands. Frost yfirleitt 0 til 10 stig, kaldast í innsveitum, en frostlaust við S-ströndina að deginum.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á þriðjudag:
Austlæg átt, 8-13 m/s, en 13-18 allra syðst. Stöku skúrir eða él, en bjartviðri á V-landi. Hiti 0 til 5 stig S-lands, en frost annars 1 til 6 stig.
Á miðvikudag og fimmtudag:
Austan og norðaustan 10-18 m/s og slydda eða rigning um landið SA-vert, hvassast syðst, en annars dálítil él. Heldur hlýnandi veður.
Á föstudag:
Útlit fyrir norðaustan- og austanáttir og rigningu SA-til, en annars skúrir eða dálítil él. Hiti nærri frostmarki.
Á laugardag og sunnudag:
Líkur á áframhaldandi austanáttum, slyddu eða rigningu með köflum og fremur mildu veðri.
Hlýnar líklega þegar líður á vikuna
Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
