Innlent

Snjókoma og skafrenningur síðdegis

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Það er éljagangur í kortunum.
Það er éljagangur í kortunum. Vísir/Hanna
Búast má við snjókomu og skafrenningi á heiðarvegum á Snæfellsnesi og Vestfjörðum síðdegis og á Norðvesturlandi í kvöld, svo að færð gæti spillst á þeim slóðum.

Samkvæmt hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar er lægðardrag á leið norður skammt vestur af Reykjanesi. Snjókoma frá draginu kemur á land síðdegis. Fyrst við Breiðafjörð en svo teygir úrkoman sig eftir norðanverðu landinu að Austfjörðum í fyrramálið, en þá fer að stytta upp á Snæfellsnesi og birta til á Vestfjörðum.

Útlit er fyrir að Norðaustur-, Austur- og Suðurland haldist þurr í dag en á morgun þegar dragið færist til suðurs fer að snjóa fyrir sunnan. Norðaustanáttin sem ýtir draginu af landinu kemur með éljum og því má búast við ofankomu norðaustanlands.

Frá þriðjudegi og fram á helgi er svo útlit fyrir ákveðinni norðan átt með snjókomu eða éljum norðanlands en þurrt og bjart fyrir sunnan. Áfram kalt í veðri.

Horfur næsta sólarhringinn

Hæg austlæg eða breytileg átt og skýjað með köflum en suðaustan 5-13 m/s og él um landið suðvestanvert. Fer að snjóa norðvestantil síðdegis og snjókoma á köflum norðan- og vestanlands í nótt.

Norðaustan 8-15 m/s á morgun en hægari vindur á Norðausturlandi. Snjókoma á köflum á sunnanverðu landinu og dálítil él norðaustanlands en þurrt að kalla norðvestantil.

Hiti um og yfir frostmarki að deginum.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á mánudag (annar í páskum):

Norðaustlæg átt, 8-13 m/s en hægari norðaustantil. Snjókoma eða él á köflum, einkum um landið sunnanvert. Frost 1 til 7 stig að deginum.

Á þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag:

Ákveðnar norðan og norðaustan áttir með snjókomu eða éljagangi á norðanverðu landinu, en bjartviðri sunna heiða. Frost 2 til 8 stig að deginum.

Á föstudag:

Líkur á norðaustan hvassviðri með talsverði snjókomu eða slyddu norðaustantil en úrkomuminna sunnanlands. Hiti um frostmark.

Á laugardag:

Ákveðin norðan átt með snjókomu eða éljum norðanlands en bjartviðri syðra. Hiti 0 til 5 stig en vægt frost fyrir norðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×