Háskólinn á Akureyri vinnur nú að samnorrænni rannsókn á hvernig á því standi að karlar séu svo ólíklegir eins og raun ber vitni til að nema hjúkrunarfræði. Aðeins nítján karlmenn eru í hjúkrunarfræði við íslenska háskóla í dag. Að mati Guðbjargar Pálsdóttur, formanns Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, er það allt of lítið.
„Stjórn hjúkrunarfræðingafélagsins vinnur nú að því að auka hlutfall karla í hjúkrunarfræðum. Við vitum ekki hvað það er sem veldur því að karlar vilji ekki læra hjúkrunarfræði, við þurfum að komast til botns í því. En við munum reyna að fjölga þeim með því að greiða skólagjöld karla næstu fimm árin til að fjölga körlum í stéttinni,“ segir Guðbjörg.

Gísli Kort Kristófersson, lektor í hjúkrunarfræði við Háskólann á Akureyri, segir það mikilvægt fyrir stéttina að fjölga karlmönnum.
„Við erum númer eitt í heiminum þegar kemur að jafnrétti en við erum með eitt lægsta hlutfall karla í heiminum í hjúkrun. Í þessu framsækna þjóðfélagi verðum við að finna út hví karlar sæki sér ekki menntun í hjúkrun.“
Hlutfall karlhjúkrunarfræðinga í Bretlandi er um 11,5 prósent og í Noregi er hlutfallið í kringum tíu prósent. Danir eru einnig með lágt hlutfall karlmanna í hjúkrun, um fjögur prósent.
„Miðað við sum karlastörf, þá er þetta ekkert illa launað, þannig. Við alla vega sjáum enga eina skýringu á því hvers vegna hlutfall okkar bifast ekki. Því viljum við skoða þetta náið með Norðmönnum og Dönum til að sjá hvað við getum gert betur hér á Íslandi til að fjölga karlmönnum,“ segir Gísli.