Þetta er ein stærsta greinin á Samveldisleikunum en Ástralía og Nýja-Sjáland hafa skipt á milli sín gullverðlaunum á leikunum frá því byrjað var að keppa í netbolta á Samveldisleikunum.
Það breyttist um helgina þegar að enska landsliðið tryggði sér sigurinn með vítaflautukörfu þegar að leiktíminn var liðinn en Netbolti er stór kvennagrein í Bretlandi.
Það fór ekkert á milli mála hvað sigurinn skipti ensku stelpurnar miklu máli en þær gjörsamlega misstu sig eftir leik og réðu vart við tilfinningar sínar. Engum datt í hug fyrir Samveldisleikana að hægt væri að stöðva þær áströlsku en annað kom á daginn.
Þjálfari enska liðsins er Tracey Neville, systir fótboltakappanna Gary og Phil Neville.
Síðustu sókn enska liðsins og fögnuðinn eftir leik má sjá í myndbandinu hér að neðan.