Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari nýkrýndra fimmfaldra Íslandsmeistara KR, átti erfitt með orðin og tilfinningarnar í leikslok í DHL höllinni í kvöld eftir 83-79 sigur á Tindastól og 3-1 sigur í úrslitarimmunni.
„Ég er bara búinn á því,“ sagði Finnur eftir leikinn, en hann felldi tár þegar leikurinn var flautaður af og titillinn í höfn.
„Það er gjörsamlega öll orka búin og á þessari stundu hef ég ekkert meira að segja. Hausinn á mér virkar ekki. Ég nýt augnabliksins og svo kemur þetta inn einhvern tíma á næstu dögum.“
Fimmfaldur titill í höfn hjá KR, einstakt afrek sem verður líklega ekki leikið aftur í íslenskum körfubolta.
„Það er ekki bara það, pressan í upphafi; pressan að ná í tvo í röð, þrjá í röð, alltaf þetta í röð kjaftæði, öll meiðslin, menn á einni löpp hver á eftir öðrum en samt náum við að klóra okkur fram í þessu. Þetta er ótrúlegt.“
KR er besta liðið og „það er bara staðreynd.“
„Við erum að fara í gegnum liðin sem lentu í fyrsta sæti, þriðja og fimmta, þannig að við erum að fara erfiða leið og slá út að mínu mati liðin tvö sem voru best í vetur þannig að það er ekki hægt að fara erfiðari leið í þessu.“
Þegar spurningin sem varð að koma upp kom upp, hvort hann væri svo búinn á því að hann væri búinn með KR, glotti Finnur bara, klappaði blaðamanni á öxlina og labbaði í burtu. Túlkum þetta sem nei, hann er ekki búinn.
