„Ég get ekki lagt nægilega þunga áherslu á að samningar náist hið allra fyrsta,“ segir Páll Matthíasson forstjóri Landspítalans í nýjum pistli. Skilaboð hans varðandi kjaradeiluna eru afar skýr.
„Þjónusta ljósmæðra við fjölskyldur í heimahúsum er afar mikilvægur þáttur í viðkvæmri þjónustukeðju sem nú hefur verið rofin. Við höfum við þessar aðstæður hafið samstarf við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins um breytta en skerta þjónustu við þennan hóp. Það er ekki ásættanlegt, hvorki til lengri né skemmri tíma. Semjið!“
Forstjórinn fagnar í pistlinum þeim tímamótum að auglýst var útboð jarðvegsframkvæmda vegna meðferðarkjarnans.
„Meðferðarkjarninn verður hjartað í starfsemi spítalans og þar mun meginstarfsemi hans fara fram. Við sameinum bráðastarfsemina sem nú fer fram í Fossvogi og við Hringbraut á einn stað og verður það afar langþráður áfangi. Í raun munu ný og breytt húsakynni umbylta starfseminni hjá okkur og enda þótt byggingarnar verði ekki teknar í notkun fyrr en eftir um sex ár erum við þegar farin að undirbúa þá ferla sem við vinnum eftir og miðar allt okkar umbótastarf að þessu marki.“
Lagði hann einnig áherslu á mikilvægi þeirrar uppbyggingar hjúkrunarheimila sem framundan er og heilbrigðisráðherra kynnti í vikunni.
„Þessu ber að fagna rækilega og það hefur verið ánægjulegt að þessi tíðindi skyldu koma inn á nýsköpunarvinnustofuna sem unnin var í samvinnu Landspítala, velferðarráðuneytisins, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, Landssambands eldri borgara, Alzheimersamtakanna og fleiri haghafa.“
Forstjóri Landspítalans með skýr skilaboð: "Semjið!“

Tengdar fréttir

Sýna ljósmæðrum stuðning með bumbunum
Hópur nýbakaðra og verðandi foreldra segist óttasleginn vegna þeirra stöðu sem komin er upp í kjarabaráttu ljósmæðra.

Ljósmæður á Akureyri ætla ekki að taka aukavaktir fyrr en samningar nást
Enn hefur ekki náðst að semja í kjaradeilu ljósmæðra.

Áætlun vegna ljósmæðradeilu
Landspítalinn hefur virkjað sérstaka viðbragðsáætlun vegna ljósmæðra sem nú sinna ekki heimaþjónustu við konur og nýbura vegna kjaradeilu við ríkið.