Erlent

Eini ísbjörninn í hitabeltinu dauður

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Inuka sést hér í dýragarðinum í Singapúr.
Inuka sést hér í dýragarðinum í Singapúr. vísir/epa
Eini ísbjörninn sem fæðst hefur í hitabeltinu er dauður en hann var tekinn af lífi eftir veikindi sem hann þjáðist af og tengdust háum aldri hans. Ísbjörninn hét Inuka og bjó í dýragarðinum í Singapúr.

Dýragarðurinn sendi frá sér yfirlýsingu þar sem greint var frá því að tekin hefði verið sú nauðsynlega en erfiða ákvörðun að vekja Inuka ekki upp af svæfingu. Hafi það verið gert út af mannúðarsjónarmiðum.

Læknisskoðanir sem gerðar höfðu verið á Inuka sýndu að hann þjáðist af liðagigt, tannverkjum og eyrnasýkingum. Þá komu veikburða útlimir hans í veg fyrir að hann gæti gengið.

Inuka fæddist í dýragarðurinn og var 27 ára þegar hann dó. Það er um tíu árum meira en gera má ráð fyrir því að meðalísbjörninn lifi. Hann var mjög vinsælt dýr í garðinum en vera hans í garðinum var umdeild á meðal náttúruverndarsinna sem og dýraverndunarsinna.

Singapúr er frekar óvenjulegur staður fyrir ísbjörn þar sem hitastigið þar fer sjaldan niður fyrir 25 gráður. Inuka var þó fjórði ísbjörn dýragarðsins í Singapúr en hann bjó á afgirtu svæði þar sem hitastiginu var stýrt þannig að það hentaði birninum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×