Evrópusambandið sagði fregnirnar vera jákvæðar, en að ríkið þyrfti að afkjarnorkuvæðast sem allra fyrst. Utanríkismálafulltrúi Evrópusambandsins, Federica Mogherini, sagði að þetta ætti að vera skref í þá átt. Þá hafa Bretar og Rússar tekið undir það, og sögðust Rússar vona að Bandaríkin og Suður-Kórea myndu minnka hernaðaraðgerðir á svæðinu.
Á Twitter-reikningi sínum sagði Trump að fréttirnar væru ekki einungis góðar fyrir Norður-Kóreu heldur heimsbyggðina alla og að hann hlakkaði til fundar leiðtoganna, sem er áætlaður í júní.
North Korea has agreed to suspend all Nuclear Tests and close up a major test site. This is very good news for North Korea and the World - big progress! Look forward to our Summit.
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) 20 April 2018
Leiðtogafundurinn þykir merkilegur, þá sérstaklega í ljósi þess að þetta verður í fyrsta skipti sem leiðtogar þessara ríkja funda saman en lengi vel hefur verið spenna í samskiptum ríkjanna. Trump sagði meðal annars í ágúst að „eld og heift“ myndi rigna yfir landið ef Norður-Kórea myndi standa í hótunum við Bandaríkin.
Talið er að þessar aðgerðir Jong-un séu vegna leiðtogafunda hans við bæði Bandaríkjaforseta og forseta Suður-Kóreu, Moon Jae-in. Fundur leiðtoga Kóreuskagans verður í næstu viku og er það í fyrsta skipti í 11 ár sem leiðtogarnir funda.