Skoðun

Gini hvað?

Sirrý Hallgrímsdóttir skrifar
Það mætti halda, svona miðað við umræðuna, að hvergi á byggðu bóli væri meiri ójöfnuð að finna en hér á Íslandi. Aftur og aftur koma stjórnmálamenn fram, einkum af vinstri vængnum, og fullyrða að hér sé gríðarlegur ójöfnuður í tekjum og sá ójöfnuður fari vaxandi. Þetta er fullyrt þrátt fyrir að alþjóðlegur samanburður bendi til hins gagnstæða.

Nú er auðvitað erfitt að mæla svona hluti og bera saman á milli landa. En mælingarnar benda í sömu átt og til dæmis virðist tekjumunur vera minnstur hér á landi miðað við Norðurlöndin. En samt heyrum við aftur og aftur sömu tugguna, bilið breikkar.

Það væri mjög gagnlegt ef fréttamenn spyrðu næsta mann, sem fullyrðir að launamunur sé hér mikill og fari vaxandi, í hvaða gögn sé verið að vísa. En mikilvægara er samt að spyrja hvert lokamarkmiðið sé. Hvenær er kominn nægjanlegur jöfnuður?

Viljum við að þessi margfrægi Gini-stuðull sem mælir tekjudreifinguna sé núll, það er allir með sömu tekjur, eða viljum við kannski að hann sé lægstur hér miðað við Norðurlöndin – sem er staðan núna?

Vegna þessa var ánægjulegt að heyra forsætisráðherrann segja á fundi SA að tekjujöfnuðurinn væri mikill hér í alþjóðlegum samanburði og að Gini-stuðullinn sýndi að við værum í verðlaunasæti OECD-ríkja, jafnframt því sem hér væri fátækt einna minnst. Það er óskandi að ýmsir stjórnmálamenn á vinstri vængnum taki vel eftir þessum orðum forsætisráðherrans. Það er nefnilega lítill munur á því að draga upp falska mynd af stöðu mála og því að dreifa fölskum fréttum.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×