Ránsferill fólksins er sagður hafa byrjað í upphafi síðastliðins septembermánaðar. Þá er maðurinn sagður hafa brotist inn á tvo veitingastaði á Ísafirði og stolið sitthvorum bjórkútnum. Um var að ræða 25 lítra bjórkút af gerðinni Egils Gull og 30 lítra kút fullan af Víking lager. Báðir kútarnir fundust svo við húsleit lögreglu á heimili mannsins daginn eftir.
Um þremur vikum síðar rændu karlinn og konan Bónus á Nýbýlavegi í Kópavogi. Þaðan eru þau sögð hafa haft á brott með sér umtalsvert magn af mat og drykk; til að mynda sjö bakka af bleikjuflökum, 19 bakka af kjúklingabringum, tvær hálfslítra flöskur af Tonic-vatni og 12 hálfslítra dósir af pilsner. Alls er varningurinn talinn vera um 45 þúsund króna virði.
Í dómnum yfir parinu er Bónusráninu lýst. Þar segir að konan hafi gengið um verslunina með innkaupakerru, tekið vörur úr hillum og lagt í hana. Þegar hún kom svo aftur að inngangsdyrum verslunarinnar sá maðurinn til þess að hún gæti gengið út með kerruna, með því að ganga sjálfur inn í verslunina í gegnum sjálfvirkar einstefnudyr, þannig að dyrnar opnuðust. Þannig komust þau út úr versluninni með vörurnar, án þess að greiða fyrir.

Þá er konan jafnframt sögð hafa stolið þremur léttvínsflöskum af veitingastað á Ísafirði um miðjan aprílmánuð. Starfsmaður veitingastaðarins hljóp hana uppi og endurheimti flöskurnar.
Strax í kjölfar misheppnaða vínflöskuránsins fóru hún og maðurinn inn um bakdyr bakarís á Ísafirði og stálu þaðan úr kæli innan við dyrnar. Þaðan höfðu þau á brott með sér tvær pakkningar af osti, eina öskju af smjöri og tvær flöskur af safa. Lögreglan hafði hendur í hári þeirra skömmu síðar og endurheimti vörurnar.
Sem fyrr segir var mál þeirra tekið fyrir í Héraðsdómi Vestfjarða þar sem þau játuðu brot sín. Konan mun þurfa að verja tveimur mánuðum í fangelsi en karlinn hlaut tveggja mánaða skilorðsbundinn dóm, því hann hafði hreinan sakaferil. Þá er þeim einnig gert að greiða Högum, sem reka Bónus, rúmar 45 þúsund krónur fyrir vörurnar sem þau stálu á Nýbýlavegi.