Skoðun

Framsókn gegn vaxandi kvíða og þunglyndi

Bergþór Smári Pálmason Sighvats skrifar
Við Íslendingar eigum hér um bil met í því að setja börnin okkar á þunglyndislyf. Við byrjum að setja 5 ára börn á lyf því þeim líður illa. Þunglyndislyf hjá börnum undir 14 ára þekkist varla í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við þannig að við erum að gera eitthvað rangt.

Vaxandi kvíði og þunglyndi meðal barnanna okkar er virkilegt vandamál. Það hefur verið í umræðunni að allt of margt ungt fólk er að koma úr skólakerfinu okkar með brotið sjálfsálit. Ástæðurnar á bak við þetta eru margþættar, prófkvíði reynist þeim um megn, stress frá félagslífinu og umhverfinu, heimilislífinu er ábótavant, samfélagsmiðlar anda ofan í hálsmálið á þeim, einelti, félagsfælni, laskað sjálfstraust, vanþekking og fáfræði foreldra og kennara á vandamálinu eða einhver setti ekki „Like“ á nýjustu Facebook-færsluna.

Hver sem ástæðan er þá er vandinn til staðar. Við erum að horfa á gríðarlega fjölgun ungra öryrkja sökum geðrænna kvilla. Börnin okkar eru að verða félagsfælin, kvíðin og þau skortir sjálfstraust. Við erum dugleg að tala um vandamálið en hver er lausnin?

Við verðum að vera framsækin í vitundarvakningu á þunglyndi. Fræðslufundir og námskeið verða að vera aðgengileg fyrir börnin sem og foreldra þeirra. Margir foreldrar eru ekki meðvitaðir um vandamálið fyrr en það er orðið of seint og það er vandamál út af fyrir sig. Mörg börn sem eru þunglynd eru heldur ekki meðvituð um það, þau færa rök fyrir hugsunum sínum og sannfæra sjálf sig um það að það sé allt í lagi að hata sjálfan sig, það sé eðlilegt. En það er ekkert eðlilegt við það að líta á sjálfan sig sem eitthvert úrhrak.

Það skortir almenna þekkingu á þunglyndi og hvernig hugarheimur þunglyndra virkar. Það sem þarf að gera er að grípa barnið áður en þunglyndið festir sig í sessi. Við verðum að skima skólastofur og greina börnin hraðar og verðum að vanda til verks. Við verðum að vera vakandi fyrir áhættueinkennum og kunna að taka eftir þeim.

Við verðum að hlúa að börnunum okkar. Börnin eru okkar dýrmætasta auðlind, þau sem eiga eftir að taka við af okkur.

Höfundur er í 6. sæti á lista Framsóknar í Reykjavík 




Skoðun

Sjá meira


×