Innlent

Vonast til að það dragi til tíðinda í kjaradeilu ljósmæðra í dag

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Fundurinn hófst klukkan níu í morgun
Fundurinn hófst klukkan níu í morgun Vísir/Vilhelm
Samninganefndir ljósmæðra og ríkisins hittast á sáttafundi hjá ríkissáttasemjara klukkan níu í dag. Rúmar þrjár vikur eru síðan síðasti fundur í kjaradeilunni var hjá sáttasemjari en síðan þá hafa deiluaðilar hist á nokkrum vinnufundum.

Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður samninganefndar ljósmæðra, kveðst vona að það fari að draga til tíðinda.

„Við eiginlega bara vonumst til þess að samninganefndin komi með eitthvað í dag, eitthvað tilboð, og það fari að draga til tíðinda,“ segir Katrín í samtali við Vísi.

Hún segir samninganefndirnar hafa átt gott samtal á vinnufundunum undanfarið.

„Og manni hefur fundist skilningurinn aukast. Þetta hefur verið lausnamiðaðra samtal en við höfum samt ekkert í hendi.“

Aðspurð hvort hún telji að samningar náist í þessari viku segir Katrín:

„Ég þori ekki að hleypa mér út í það að trúa því fyrr en það verður að raunveruleika, en jú, auðvitað vonar maður það innilega. Þetta er orðið langt og strangt.“

Þá segist Katrín jafnframt vona að hún sé ekki að lesa rangt í stöðuna varðandi það að vinnufundirnir hafi verið góðir og það sé að þokast í rétta átt hjá samningsaðilum.

Deilunni var vísað til ríkissáttasemjara í febrúar og hefur fjöldi ljósmæðra á Landspítalanum sagt upp störfum undanfarið. Ein uppsögn tók gildi um síðustu mánaðamót og önnur tekur gildi þann 1. Júní. Flestar uppsagnirnar taka síðan gildi þann 1. júlí næstkomandi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×