Roman Abramovich, eigandi Chelsea, er nú orðinn ísraelskur ríkisborgari ef marka má fréttir þar í landi. Rússinn Abramovich er eigandi Chelsea en missti af bikarúrslitaleik liðsins gegn Arsenal á dögunum þar sem að landvistarleyfi hans í Bretlandi var útrunnið.
Það hefur andað köldu í samskiptum Bretlands og Rússlands undanfarna mánuði eftir að eitrað var fyrir rússneskum gagnnjósnara og dóttur hans í Englandi.
Abramovich sótti um endurnýjun á landvistarleyfi sínu sem rann út í apríl en það gekk erfiðlega að fá það í gegn. Að sögn fjölmiðla í Bretlandi vildu yfirvöld þar í landi fá skýringar á því hvernig Abramovich hafði tekist að fá auðæfi sín.
Hvorki bresk yfirvöld né Abramovich sjálfur hafa tjáð sig um málið en fullyrt er að Abramovich hafi flogið til Tel Aviv í gær og fengið þar nýjan ríkisborgararétt sinn staðfestan. Innanríkisráðuneyti Ísraels hefur staðfest þetta við fjölmiðla þar í landi.
Þetta þýðir að Abramovich er heimilt að ferðast til Bretlands þar í allt að sex mánuði. Honum verður þó ekki leyfilegt að starfa þar í landi án þess að fá atvinnuleyfi.
Roman Abramovich er í hópi ríkustu manna Rússlands en hann eignaðist Chelsea árið 2003.

