Í Reykjanesbæ eru hafnar viðræður Samfylkingarinnar, Framsóknarflokks og Beinnar leiðar og komu fulltrúar flokkanna saman nú síðdegis til fyrsta fundar, að sögn Friðjóns Einarssonar, oddvita Samfylkingarinnar.
Í Hafnarfirði segir oddviti sjálfstæðismanna, Rósa Guðbjartsdóttir, að þeir stefni að því að ræða við fulltrúa allra flokka í dag og á morgun og býst Rósa við að framhaldið skýrist síðdegis á morgun.
Á Akranesi hittust fulltrúar Samfylkingarinnar og Framsóknarflokks nú síðdegis, samkvæmt heimildum fréttastofu, og búist við að þeir hefji formlegar meirihlutaviðræður. Þar lýstu allir flokkar því yfir fyrir kosningar að þeir vildu hafa Sævar Frey Þráinsson áfram sem bæjarstjóra.
Á Ísafirði er Framsóknarflokkur í lykilstöðu eftir að meirihluti Í-listans féll. Oddviti framsóknarmanna, Marzellíus Sveinbjörnsson, segir þá núna liggja undir feldi eftir að hafa þreifað á bæði Í-lista og D-lista og þeir muni ákveða í kvöld eða morgun um framhaldið.
Í Fjallabyggð eru fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Betri Fjallabyggðar nánast búnir að mynda nýjan meirihluta, að sögn Helgu Helgadóttur, oddvita sjálfstæðismanna. Þar er gert ráð fyrir að Gunnar I. Birgisson verði endurráðinn bæjarstjóri.
Á Akureyri héldu Framsóknarflokkur, L-listi og Samfylkingin meirihluta sínum og hafa flokkarnir þrír þegar hafið viðræður um að halda samstarfinu áfram.
Á Húsavík ætla fulltrúar Sjálfstæðisflokks, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna að hittast í kvöld um meirihlutamyndun í Norðurþingi, að sögn Óla Halldórssonar, oddvita Vinstri grænna.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: