Það þýðir að vindinn lægir og það styttir upp. Síðdegis verður fremur hæg breytileg átt og bjart á köflum. „Með öðrum orðum: á einhverjum tímapunkti ættu allir landsmenn að sjá til sólar í dag,“ eins og veðurfræðingur orðar það á vef Veðurstofunnar. Hitinn verður á bilinu 8 til 18 stig, hlýjast austast.
Lægð á Grænlandshafi í samvinnu við hæð austur af landi mun síðan orsaka suðaustanátt á landinu á morgun. Vindur verður „óþarflega stífur“ vestanlands og gætu orðið nokkuð snarpar vindhviður við fjöll á Faxaflóasvæðinu og á Snæfellsnesi og varasamt að vera á ferðinni með létta aftanívagna.
Lægð morgundagsins mun þó ekki ná að senda úrkomusvæði sitt almennilega inn á land og því mun væntanlega aðeins rigna að ráði með suðvestur- og vesturströndinni.
Á Norður- og Austurlandi verður bjart í sunnanáttinni á morgun og einnig hlýtt, mögulega rofnar 20 stiga múrinn. Gerist það ekki á morgun, er líkegt að það náist á miðvikudaginn, því þá verður áfram hlýtt um landið norðaustanvert.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á þriðjudag:
Suðaustan 10-15 m/s suðvestan- og vestanlands, skýjað og rigning við ströndina. Suðaustan 5-10 annars staðar og yfirleitt léttskýjað. Hiti 10 til 20 stig, hlýjast á Norður- og Austurlandi.
Á miðvikudag:
Suðlæg átt 3-10. Skýjað og smásúld eða þokuloft sunnan- og vestanlands með hita 8 til 12 stig. Bjartviðri norðaustantil á landinu og hiti 15 til 22 stig.
Á fimmtudag:
Hæg vestlæg eða breytileg átt. Skýjað að mestu á landinu og sums staðar súld eða þokuloft, einkum við vesturströndina. Hiti 8 til 15 stig.
Á föstudag:
Vestlæg eða breytileg átt og rigning eða súld um tíma í flestum landshlutum. Kólnar heldur í bili.
Á laugardag og sunnudag (sjómannadagurinn):
Útlit fyrir áframhaldandi vestlæga átt. Skýjað og sums staðar þokuloft suðvestan- og vestanlands, en bjart með köflum annars staðar. Hiti 10 til 20 stig, hlýjast á austanverðu landinu.