Innlent

19 ljósmæður hætta um mánaðamótin

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður kjaranefndar ljósmæðra.
Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður kjaranefndar ljósmæðra. Vísir/Eyþór
Félagsmenn í Ljósmæðrafélagi Íslands felldu í gær kjarasamning sem kjaranefnd ljósmæðra og ríkið undirrituðu í síðustu viku. 63 prósent þeirra félagsmanna sem þátt tóku greiddu atkvæði gegn samningnum en 33 prósent með.

Kjaradeila ljósmæðra hefur verið hörð undanfarna mánuði og hafa allnokkrar ljósmæður sagt upp störfum hjá ríkinu í mótmælaskyni vegna slæmra kjara og álags á vinnustað. Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður kjaranefndar ljósmæðra, segir að nítján uppsagnir taki gildi næstu mánaðamót á Landspítalanum.

Katrín segir að þar sem vika sé liðin frá því samningurinn var kynntur og enginn hafi enn dregið uppsögn sína til baka þyki henni ólíklegt að uppsagnir verði dregnar til baka. „Miðað við kosninguna og hitann í konum þætti mér líklegra að það bætist í frekar en hitt.“

Kjaranefndin stefnir á að hittast um eða strax eftir helgi og í kjölfarið verður stöðufundur hjá Ríkissáttasemjara „vonandi sem allra fyrst“.

„Vonandi verður gengið rösklega til verks, gert betur og komið fram við ljósmæður af þeirri virðingu sem þær eiga skilið,“ segir Katrín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×