Innlent

Áhyggjufullir foreldrar endurheimtu ungann sinn

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá björgunaraðgerðum við Austurbæjarskóla í dag.
Frá björgunaraðgerðum við Austurbæjarskóla í dag. Mynd/Kjartan Jónsson
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, ásamt slökkviliði, kom hrafnsunga til bjargar í dag. Unginn hafði dottið úr hreiðri sínu og komu viðbragðsaðilar honum heilum og höldnu til foreldra sinna sem höfðu búið sér laup í þakskeggi Austurbæjarskóla.

Greint er frá þessu á Facebook-síðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu en þar segir að í fyrstu hafi verið talið að hrafninn væri slasaður. Við nánari skoðun var þó ljóst að krummi var heill en hafði enn ekki lært að fljúga sökum ungs aldurs.



Skömmu síðar bárust tilkynningar um óvenju hávært hrafnspar í miðborginni og þótti þá ljóst að einn ungann vantaði í hreiðrið – nefnilega ungann sem ratað hafði inn til lögreglu. Foreldrarnir höfðu þá haldið vöku fyrir íbúum í hverfinu með háværu krunki sínu.

„Okkar fólk brást fljótt við og skipulagði björgunaraðgerð, ásamt Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, þar sem hrafnsunganum var komið til síns heima, í laup foreldra sinna. Þess ber að geta að á meðan björgunaraðgerðum stóð, stóð hinum öldnu foreldrum ekki á sama, flugu yfir og görguðu á björgunarmenn,“ segir í tilkynningu lögreglu.

Fleiri myndir af björgunarafrekinu má sjá hér að neðan.

Að sögn sjónarvotts er þetta annað árið í röð sem hrafnspar gerir sig heimakomið við Austurbæjarskóla.Mynd/Kjartan Jónsson
Krummi var að sögn lögreglu ósáttur með gistinguna á lögreglustöðinni.Mynd/lögreglan á höfuðborgarsvæðinu



Fleiri fréttir

Sjá meira


×