„Sagan segir að bréfið hafi fundist í Biblíu. Utan á því eru fyrstu íslensku þjónustuskildingamerkin sem er Ísland og svo talan 1876,“ segir Gísli Geir Harðarson, framkvæmdastjóri NORDIA og formaður Landssambands íslenskra frímerkjasafnara.
Aðspurður hvort hann viti hvað standi í bréfinu svarar Gísli Geir því neitandi. „Það hefur örugglega einhver opnað þetta bréf. En mér finnst líklegt að þetta sé bréf frá embættismanni. Þeir fengu sérfrímerki á þessum tíma og sést það á bréfinu. Það er ólíklegt að bréfið hafi verið eitthvað persónulegt,“ segir hann.

Vegna þeirra miklu verðmæta sem eru í húfi verður sérstök og öflug öryggisgæsla á sýningarstað alla helgina. „Það verður öllu tjaldið til í öryggisgæslu allan sólarhringinn,“ segir Gísli Geir. Stærsti hluti sýningarinnar lýtur að frímerkjum en matsverð íslenskra seðla og myntar á svokölluðum fullveldishluta sýningarinnar er um 200 milljónir króna, enda margir fágætir og verðmætir seðlar.
„Við höfum alltaf fengið góða aðsókn að sýningunni og ég veit að Norðurlandaþjóðir öfunda okkur af því hvað þessar samkomur eru vel sóttar,“ segir Gísli Geir. Ókeypis aðgangur er að sýningunni og verður opið á föstudag klukkan 14-18, laugardag 10-17 og sunnudag 10-16.