Nú þegar allt lítur út að verði af leiðtogafundi Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, og Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu sitja embættismenn ríkjanna nú á rökstólum til þess að undirbúa fundinn. Meðal þess sem rætt hefur verið er hver eigi að greiða fyrir hótelgistingu leiðtoga Norður-Kóreu.
Eftir að hafa tilkynnt nokkuð óvænt í fyrri viku um að ekkert yrði af fundinum tilkynnti Trump á föstudag að stefnt væri að því að halda fundinn sögulega þann 12. júní næstkomandi í Singapore.
Washington Post greinir frá því í kvöld að vegna þess hversu viðskiptaþvinganir Vesturveldanna og annarra ríkja hafi leikið Norður-Kóreu grátt hafi Kim Jong-un farið fram á það að annað ríki greiði fyrir hótelherbergi hans í Singapore á meðan fundinum stendur.
Bandaríska blaðið greinir frá því að Kim hafi krafist þess að gista í svítu á hinu fimm stjörnu Fullerton-hóteli í Singapore, þar sem nóttin kostar sex þúsund dollara, um 600 þúsund krónur. Eru embættismenn Bandaríkjanna sagðir vera tilbúnir til þess að verða við þeirri ósk en einnig sé til skoðunar að yfirvöld í Singapore greiði reikninginn.
Þá hafa ICAN-samtökin sem helga sig baráttunni gegn kjarnorkuvopnavá boðist til þess að greiða reikninginn með hluta verðlaunafésins sem samtökin fengu þegar þau hlutu friðarverðlaun Nóbels á síðasta ári.
Enn á eftir að ákveða nákvæma staðsetningu fyrir fund leiðtoganna tveggja en talið er að helst sé verið að horfa til hótels á eyjunni Sentosa, undan ströndum Singapore.
Hver á að borga hótelið fyrir Kim Jong-un?

Tengdar fréttir

Trump hættur við að hætta við fundinn með Kim
Forsetinn tilkynnti þetta eftir að sendifulltrúi Norður-Kóreu afhenti honum bréf frá Kim Jong-un.