Fótbolti

Gylfi veit hvað þrennt þarf til að vinna Króatíu í kvöld

Tómas Þór Þórðarson í Rostov við Don skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson er klár í bátana.
Gylfi Þór Sigurðsson er klár í bátana. vísir/vilhelm
Gylfi Þór Sigurðsson, leikmaður íslenska landsliðsins í fótbolta, segir króatíska liðið vera eitt það besta í heimi. Það er einfaldlega að spila svo vel.

Strákarnir okkar mæta þessu ógnvænlega liði Króatíu, sem ætlar þó að hvíla nokkra leikmenn, á Rostov-vellinum í Rostov við Don í kvöld í lokaumferð D-riðils á HM 2018 í fótbolta.

Ekkert annað en sigur kemur strákunum okkar áfram í 16 liða úrslitin en það gæti svo ekki dugað ef allt fer á versta veg í leik Argentínu og Nígeríu.

„Við vitum að Króatía er eitt besta landslið heims. Það sést bara á því hvernig það spilar. Ég held að það skipti engu máli hvort við unnum þá í fyrra eða töpuðum fyrir þeim fyrir þremur árum,“ segir Gylfi við heimasíðu FIFA.

Ísland og Króatía hafa mæst fjórum sinnum á síðustu fimm árum; í umspili um sæti á HM 2014 og aftur í undankeppni HM 2018. Króatía vann tvo leiki, einu sinni enduðu leikar með jafntefli en Ísland vann síðast þegar að þau mættust í fyrra. Til að vinna Króatana aftur þarf þrennt til að mati Gylfa.

„Þetta verður allt öðruvísi leikur en það er gott að hafa sýnt að við getum unnið þá. Við þurfum fulla einbeitingu, fullt sjálfstraust og þolinmæði til að vinna,“ segir Gylfi Þór Sigurðsson.

Vísir er með öflugt teymi í Rússlandi sem verður með ítarlegan fréttaflutning af íslenska liðinu á HM. Fylgist með á samfélagsmiðlum okkar - á Facebook, Twitter og Instagram.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×