Kvennalið Stjörnunnar í körfubolta er byrjað að undirbúa sig fyrir átökin í Dominos deildinni á næstu leiktíð en félagið hefur gert nýja samninga við sjö leikmenn. Þetta kemur fram á karfan.is
Ein af þeim er Danielle Rodriguez sem var einn allra besti leikmaður deildarinnar á síðustu leiktíð. Hún var með 29 stig, 12 fráköst og 9 stoðsendingar að meðaltali í leik.
Jóhanna Björk Sveinsdóttir, Auður Íris Ólafsdóttir, Aldís Erna Pálsdóttir, Sólrún Sæmundsdóttir, Sunna Margrét Eyjólfsdóttir og Jenný Harðardóttir skrifuðu einnig undir samninga við Stjörnuna og verða með liðinu á næstu leiktíð.
Stjarnan hafnaði í 5.sæti Dominos-deildarinnar á síðustu leiktíð en liðið var með jafnmörg stig og Skallagrímur en Borgarnesliðið var sæti ofar vegna innbyrðisstöðu. Garðabæjarliðið var því hársbreidd frá sæti í úrslitakeppninni.
