Innlent

Ljósmæður hefja undirbúning verkfallsaðgerða

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá samstöðufundi með ljósmæðrum sem haldinn var í Mæðragarðinum í gær.
Frá samstöðufundi með ljósmæðrum sem haldinn var í Mæðragarðinum í gær. vísir/elín margrét
Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður samninganefndar Ljósmæðrafélags Íslands, segir að undirbúningur fyrir verkfallsaðgerðir stéttarinnar sé hafinn.

Aðgerðirnar munu felast í yfirvinnubanni á Landspítalanum og öðrum stofnunum þar sem ljósmæður sinna yfirvinnu.

 

Katrín segir að undirbúningur aðgerðanna taki um tvær vikur. Því má búast við því að verkfallsaðgerðir hefjist skömmu eftir næstu mánaðamót en þann 1. júlí taka gildi uppsagnir 19 ljósmæðra á Landspítalanum.

Fundi í kjaradeilu ljósmæðra og ríkisins hjá ríkissáttasemjara sem hófst klukkan 11 í morgun lauk án niðurstöðu um klukkan 13. Katrín segir að fundurinn hafi verið meiri stöðufundur heldur en eiginlegur samningafundur.

Fundurinn var sá fyrsti á milli deiluaðila eftir að ljósmæður felldu kjarasamning sem skrifað var undir í maí. Stefnt er að næsta fundi á fimmtudaginn í næstu viku.

„Þetta lítur mjög illa út og þetta er mjög alvarleg staða. Við í kjaranefnd Ljósmæðrafélagsins göngum að samningaborðinu með það að vilja vinna í lausnum, funda hratt og vel og að það sér reynt að komast samningsfleti sem fyrst. Við höfum lagt fram okkar kröfur, það hefur ekki staðið á því, en nú bíðum við efir umboði og vilja frá umboðsmönnum ríkisstjórnarinnar að mæta okkur og klára þetta,“ segir Katrín.

Ljósmæðrafélagið hefur umboð frá félagsmönnum til að boða til verkfalls á heilsugæslum. Katrín segist ekki vita hvort komi til þess eða hvort það verði yfir höfuð núna en byrjað verði á því að boða til yfirvinnubanns.

En ætlið þið að fara í þetta núna eða bíða og sjá hvað kemur út úr samningafundinum næsta fimmtudag?

„Við erum bara að undirbúa þetta en það tekur um hálfan mánuð að undirbúa svona verkfallsaðgerð.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×