Stjórnendur Landspítalans hafa gripið til þess ráðs að gera breytingar á fæðingarþjónustu spítalans vegna þeirrar stöðu sem er komin upp í fæðingarþjónustu og öðrum fæðingarstöðum í kjölfar uppsagna ljósmæðra og yfirvinnuverkfalls í kjaradeilu ljósmæðra.
Meðgöngu-og sængurlegudeild Landspítala verður nú lokað og hún sameinuð kvenlækningadeild 21A. Breytingarnar taka gildi á á morgun.
Frá og með mánudeginum 23. júlí falla fyrstu reglubundnu ómskoðanir þungaðra kvenna niður. Ljósmæður sem hafa sinnt þeirri þjónustu munu hverfa til annarra starfa innan fæðingarþjónustunnar. Um er að ræða ómskoðun sem yfirleitt fer fram milli 11. og 14. viku meðgöngu og er fyrsta fósturgreining.
Á vef Landspítalans er tekið fram að önnur fósturgreining stendur verðandi foreldrum, eftir sem áður, til boða ásamt tilfallandi bráðaskoðunum.
Yfirmenn spítalans gera ráð fyrir því að þessar ráðstafanir standi á meðan kjaradeila ljósmæðra stendur yfir.
Kjaradeila ríkisins og ljósmæðra er enn í pattstöðu eftir að kjaranefnd ljósmæðra féllst ekki á það í dag að sáttasemjari fengi að leggja fram miðlunartillögu.

