Eins og Vísir greindi frá í morgun féllst Mannréttindadómstóll Evrópu ekki á að íslenska ríkið hefði brotið gegn Agli Einarssyni með dómum sínum í héraði og Hæstarétti í meiðyrðamáli sem Egill höfðaði gegn Sunnu Ben Guðrúnardóttur. Héraðsdómur og Hæstiréttur dæmdu ummæli Sunnu Ben dauð og ómerk en féllust ekki á kröfu Egils um miskabætur, að Sunna þyrfti að standa kostnað af birtingu dómsniðurstöðu í fjölmiðlum og að Egill þyrfti að greiða málskostnað.
Ómerktu ummælin aðalatriðið
„Málið vannst að stærstum hluta í Hæstarétti. Það er ekki hlutverk Mannréttindadómstólsins að endurskoða niðurstöðu Hæstaréttar,“ sagði Vilhjálmur. Hann segir niðurstöðu Mannréttindadómstólsins unað.„Ég er ánægður með að málið hafi verið tekið til skoðunar því fæst mál ná svo langt,“ segir Vilhjálmur.
„Aðalatriðið var alltaf það að ummælin voru dæmd dauð og ómerk.“
Ólíkt því sem var í morgun komst Mannréttindadómstóllinn að þeirri niðurstöðu í nóvember að dómar íslenskra dómstóla í máli Egils gegn Inga Kristjáni Sigurmarssyni hefðu verið brot á áttundu grein mannréttindasáttmálans.
„Það mál var það sem skipti langmestu máli í Strassborg, og það vannst.“