Matthildur Ásmundardóttir, framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á Hornafirði hefur verið ráðin bæjarstjóri Sveitarfélagsins Hornafjarðar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bænum.
Matthildur, sem er 40 ára gömul, hefur undanfarin sex ár starfað sem framkvæmdastjóri HSU á Hornafirði. Áður starfaði hún sem sjúkraþjálfari hjá Heilbrigðisstofnun Suðausturlands og sjálfstætt á eigin stofu. Hún lauk BSc-prófi í sjúkraþjálfun frá HÍ árið 2002, MSc-prófi í íþrótta- og heilsufræði frá HÍ árið 2011 og prófi í verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun frá HA árið 2017.
„Matthildur hefur reynslu af sveitarstjórnarmálum og sat í ýmsum nefndum sveitarfélagsins á árunum 2006-2012.
Í starfi framkvæmdastjóra HSU Hornafirði og nefndarstörfum hefur hún unnið að stefnumótunarvinnu í heilbrigðisþjónustu, tómstunda-, skóla- og menningarmálum þá sat hún í stýrihóp sem mótaði Fjölskyldustefnu sveitarfélagsins.
Matthildur hefur einnig verið virk í félagsstörfum á Hornafirði,“ segir í tilkynningu.
Hún er gift Hjálmari J. Sigurðssyni, sjúkraþjálfara og saman eiga þau þrjú börn, Tómas Orra 14 ára, Elínu Ásu 12 ára og Sigurð Arnar 6 ára.
Mun Matthildur hefja störf þann 1. september næstkomandi.
Matthildur ráðin bæjarstjóri í Sveitarfélaginu Hornafirði

Tengdar fréttir

Ráðinn bæjarstjóri Sandgerðis og Garðs
Magnús kemur til starfa 15. ágúst næstkomandi og mun Róbert Ragnarsson sinna starfi bæjarstjóra þangað til.

Gísli ráðinn bæjarstjóri Árborgar
Hefur undanfarin fjögur ár starfað sem bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar.