Innlent

Banaslysum hefur fjölgað frá því í fyrra

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Þórhildur Elín Elínardóttir, samskiptastjóri Samgöngustofu
Þórhildur Elín Elínardóttir, samskiptastjóri Samgöngustofu Mynd/Skjáskot
Banaslysum í umferðinni hefur fjölgað frá því í fyrra samkvæmt upplýsingum frá Samgöngustofu. Umferðin verði sífellt hættulegri hér á landi, en flest slysanna tengist mannlegum þáttum.

Það sem af er ári hafa 11 manns látið lífið í umferðarslysum. Um fjölgun banaslysa er að ræða en á sama tíma í fyrra höfðu átta manns látið lífið.

Tala látinna í slíkum slysum hefur hækkað um þrjá frá því á sama tíma í fyrra. Samskiptastjóri Samgöngustofu segist uggandi yfir þessum tölum, en samkvæmt tölfræði fyrri ára, fari slysum fjölgandi eftir því sem líður á árið.

„Ef hlutfallið helst þá horfir ekki vel á þessu ári,“ segir Þórhildur Elín Elínardóttir, samskiptastjóri Samgöngustofu.

Slysin gerist á öllum tímum árs. En þó sé færðin verst yfir vetrartímann. Þá segir hún slysatölur dreifast nokkuð jafnt um landið allt.

„Það eru örlítið fleiri banaslys sem hafa orðið í dreifbýli eða úti á vegum landsins en þau hafa einnig verið þónokkur innanbæjar. Þetta eru alls ekki góðar fréttir fyrir okkur hér á Íslandi að umferðin sé orðin svona greinilega hættulegri en hún var. Fyrir því eru ýmsar orsakir,“ segir Þórhildur.

Hún segir flest slys verða vegna mannlegra þátta. Þó sé færð á vegum gjarnan skráð sem orsakavaldur slysa. 

„Þetta er ákvörðun hjá hverjum og einum að taka áður en lagt er af stað, að halda löglegum hámarkshraða í það minnsta,“ segir Þórhildur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×