„Ég tel að þau sem áttu að vernda fólk, áttu að slökkva eldana og í raun koma í veg fyrir að þeir kviknuðu, verði sakfelld,“ sagði Antonis Foussas, lögmaður fjölskyldunnar, við Reuters. Sagðist hann jafnframt rannsaka hvernig eldarnir kviknuðu og hvort viðbrögð yfirvalda hafi verið fullnægjandi.
Fórnarlömbin, hjón á áttræðisaldri, voru bæði á flótta undan eldunum þegar þau fórust. Lík þeirra fundust um 400 metra frá heimilum þeirra.
Þar kom enn fremur fram að enginn embættis- eða yfirmaður frá fylkinu, sveitarfélaginu, lögreglu, slökkviliði eða almannavörnum hafi verið á svæðinu, að enginn hafi látið íbúa vita af hættunni og að ekki hafi verið gefin fyrirmæli um að rýma skyldi svæðið.
Gríski prófessorinn Vassilis Digalakis greindi frá því í gær að lögregla hefði fyrir mistök beint ökumönnum í ógöngur er hún stýrði umferð í Mati. Í stað þess að beina bílum til baka út úr bænum á stofnbraut bæjarins voru bílstjórar sendir inn á þau svæði sem eldurinn stefndi á.

Tugir dóu er þeir reyndu að flýja eftir að hafa lent í umferðarteppu í Mati. Að minnsta kosti 305 bílar eyðilögðust í eldsvoðanum. Svo heitt varð að álfelgur og rúður bílanna einfaldlega bráðnuðu.
Þá hefur sömuleiðis verið greint frá því að engin opinber neyðartilkynning hafi verið send út. Því hafi íbúar varla fengið neinn tíma til að bregðast við. Þá hafi skipulag bæjarins, þröngar götur, botnlangar og skortur á opnum svæðum, verið til þess fallið að hindra að fólk kæmist undan.
Kallað hefur verið eftir afsögn Yannis Kapakis, yfirmanns Almannavarnastofnunar. Kapakis sagði í viðtali í sjónvarpi, fjórum dögum fyrir hamfarirnar, að jafnt á sjó sem landi væri viðbúnaðarstigið hátt. Ekki hefur verið orðið við því ákalli. Reyndar hefur enginn embættismaður sagt af sér vegna málsins, að því er BBC greinir frá.
Greek Reporter greindi frá því að ríkisstjórnin ætli að rífa 3.185 ólöglegar byggingar við strendur Attíkuskaga. Á fimmtudag sagði Panos Kammenos varnarmálaráðherra að íbúar sjálfir bæru ábyrgð á eldsvoðanum með því að hafa reist byggingarnar í leyfisleysi og þannig lokað flóttaleiðum. Yfirvöld hafa áður haldið því fram að svo virðist sem um íkveikju hafi verið að ræða.
Dimitris Tzanakopoulos, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar, sagði á þriðjudag að ríkisstjórnin ætlaði að hefja niðurrif hið fyrsta og að sérfræðingar væru sammála um að byggingarnar hefðu gert illt verra í hamförunum. Grískir blaðamenn minntu svo á að fjölmargar ríkisstjórnir hefðu lofað að rífa byggingarnar en við það hefði ekki verið staðið vegna ótta við að baka sér óvinsældir.