Á föstudag tísti Donald Trump að hann hygðist hækka tolla á ál og stál frá Tyrklandi. Tollar fyrir álið yrðu tuttugu prósent en fimmtíu prósent fyrir stálið. Gripið var til aðgerðanna eftir að Tyrkir neituðu að láta bandarískan klerk úr haldi sem sakfelldur hafði verið fyrir þátt sinn í valdaránstilrauninni í Tyrklandi fyrir tveimur árum síðan.
Yfir helgina flutti tyrkneski forsetinn þrjú ávörp í tilraun sinni til að ná tökum á stöðunni. Í ávörpunum réðst hann meðal annars gegn Bandaríkjunum og hótaði því að Tyrkir myndu finna sér nýjan bandamann í þeirra stað. Þá útilokaði hann að hækka stýrivexti og þá útilokaði hann einnig þann möguleika að Tyrkland myndi leita á náðir alþjóðlegra stofnana ef allt færi á versta veg. Að auki kallaði hann eftir því að íbúar Tyrklands myndu selja erlendan gjaldeyri og kaupa lírur til að styrkja stöðu lírunnar en frá árinu 2016 hefur verðgildi lírunnar rýrst mjög eða um helming gagnvart dollar og evru.
I have just authorized a doubling of Tariffs on Steel and Aluminum with respect to Turkey as their currency, the Turkish Lira, slides rapidly downward against our very strong Dollar! Aluminum will now be 20% and Steel 50%. Our relations with Turkey are not good at this time!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) August 10, 2018
Sem kunnugt er var Erdogan endurkjörinn forseti Tyrklands í júní síðastliðnum. Breytingar á stjórnarskrá landsins, sem samþykktar voru í kjölfar valdaránstilraunarinnar, færa forsetanum gríðarleg völd en þau ná meðal annars til efnahagslífsins. Mörgum þykir forsetinn full þver í afstöðu sinni og hafa kallað eftir því að seðlabanki landsins grípi til aðgerða í stað þess að bíða og vona það besta. Yfirlýsingarnar nú gefa lítið tilefni til þess.
„Vandinn nú á rætur sínar að rekja til skorts á efnahagsstjórn í landinu. Það mun reynast núverandi stjórnvöldum afar erfitt að sýna fram að þau séu þess megnug að hanna og fylgja skynssamlegu plani til að leysa hann,“ segir Refet Gurkaynak, hagfræðiprófessor við Bilkent-háskólann í Ankara, við Bloomberg.
Gurkaynak segist enn fremur efast um það að vandinn myndi leysast með því að sleppa klerknum úr haldi. Sú aðgerð myndi væntanlega aðeins kaupa Tyrklandi gálgafrest. Skuldastaða Tyrklands gagnvart erlendum ríkjum sé of erfið og vandasamt gæti orðið að ráða niðurlögum verðbólgunnar í landinu. Sem stendur er verðbólga í Tyrklandi tæp sextán prósent og hefur aukist um sex prósentustig frá upphafi árs.