Golf

Woods rétt slapp í gegnum niðurskurðinn

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Tiger Woods
Tiger Woods Vísir/Getty
Brooks Koepka hefur verið einn besti kylfingur ársins og vann tvö af fjórum risamótum sumarsins. Hann er jafn í forystu á fyrsta móti úrslitakeppninnar um FedEx bikarinn á PGA mótaröðinni.

Koepka vann Opna bandaríska risamótið og PGA meistaramótið í sumar. Hann fór annan hring á Northern Trust mótinu á 65 höggum í gær, sem er sex undir pari og er Koepka því á tíu höggum undir pari í mótinu, líkt og Jamie Lovemark.

Northern Trust mótið er fyrsta mótið af fjórum í úrslitakeppninni um FedEx bikarinn. 125 stigahæstu kylfingarnir til þessa á PGA mótaröðinni fengu þáttökurétt á mótinu. Á næsta mót komast 100 stigahæstu kylfingarnir, svo verður skorið niður í 70 og á lokamótinu fá aðeins 30 stigahæstu kylfingarnir þáttökurétt.









Tiger Woods rétt slapp í gegnum niðurskurðinn á mótinu, hann er á pari vallarins eftir að hafa verið í vandræðum með púttin í gær. Niðurskurðarlínan var við eitt högg yfir par.

Woods var í 20. sæti FedEx stigalistans áður en mótið hófst og því ætti hann að vera öruggur um að lenda á meðal 100 efstu og ná inn á næsta mót í úrslitakeppninni, sama hvað hann gerir um helgina.

Adam Scott frá Ástralíu átti besta hring gærdagsins, hann fór á 64 höggum eða sjö höggum undir pari. Glæsileg spilamennska hans skilaði honum á níu högg undir pari, einu höggi frá Koepka og Lovemark í fyrsta sætinu.

Bein útsending frá þriðja keppnisdegi hefst á Golfstöðinni klukkan 17:00.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×