Skoðun

Íslensk klisja í afmælisgjöf

Sif Sigmarsdóttir skrifar
Dóttir mín á afmæli í dag. Hún er fimm ára. Þrátt fyrir að vera ung að árum er langt síðan hún uppgötvaði neysluhyggjuna. Tveggja ára gekk hún um verslanir, benti á hluti af handahófi og suðaði: „Má ég fá svona, má ég fá svona, má ég fá eitthvað?“

Þótt sjálfsmynd mín sé sú að ég sé hatrammur baráttumaður gegn kaupæði og ruslsöfnun samtímans og ég ali börn mín upp í nægjusemi, frjáls undan ægivaldi Mammons, bendir ástand svefnherbergis dótturinnar til annars. Ætla mætti að herbergið hefði orðið fyrir aurskriðu af dóti.

Barnið veit ekki hvernig gólfteppið er á litinn því það hefur ekki sést til þess síðan 2016 fyrir Barbie dúkkum sem liggja flatar undir Legó-húsum sem hrunin eru til grunna, heilu Sylvania fjölskyldunum sem orðið hafa fyrir leikfangalestum, þreklausum handbrúðum sem glatað hafa lífsþorstanum og prinsessubúningum sem liggja flatir eins og fallið konungsfólk í frönsku byltingunni. Ef allir týndu sokkar heimilisins, stytta eftir listakonuna Stein­unn­i Þór­ar­ins­dótt­ur og flugvél Ameliu Earhart kæmu í leitirnar næst þegar tekið verður til í herberginu yrði ég ekki hissa.

Í ljósi þessa kapítalíska hamfarasvæðis vildi ég ekki gefa dótturinni dót í afmælisgjöf. Ég vildi gefa henni eitthvað sem gagnaðist henni en líka eitthvað sem gleddi hana. En með hverju gleður maður einhvern sem stendur í þeirri trú að ærandi rafhlöðuknúnu vitsugurnar úr litskrúðuga plastinu frá Fisher Price gefi lífinu lit?

Tindar í tungunni

Sem Íslendingur sem búið hefur öll sín fullorðinsár í útlöndum er ég stundum eins og lúðulaki sem ferðaðist til landsins með tímavél þegar ég sæki Ísland heim. Ég á ekki úlpu frá 66°Norður, ég er ekki að þjálfa fyrir maraþon, klíf ekki fjöll, á ekki Omaggio-vasa, held að Hlemmur sé strætóstoppistöð og hef ekki smakkað Valdís. Það sama á við þegar kemur að íslenskri tungu; ég er steingervingur sem talar í tískuorðum sem síðast voru í almennri notkun þegar fólk í fötum úr Vinnufatabúðinni hékk á Prikinu og Sölvi í Quarashi var bókstaflega Sölvi í Quarashi; orðum eins og: ýkt; stulli; súperdós.

En á meðan fjarlægðin við Ísland í tíma og rúmi gerir mig geðveikt halló (segir maður enn þá halló – eða er halló að segja halló?) er sýnin í hina áttina þveröfug. Fjarlægðin við heimahagana skýrir fyrir mér það sem hæst ber í flottheitum á Íslandi. Tískustraumar í klæðaburði, neyslumynstri og innanhússhönnun birtast mér í fjarska eins og Íslands fjöll rísa úr útsæ (hér gæti ég bætt við: „með eld í hjarta þakin mjöll“ en ég er ekki alveg svo halló).

Það sama gildir um tungumálið en í því greini ég reglulega tinda sem ekki eru mér tamir: fössari; bolur; fólkið mitt (hvað varð um fjölskylduna?); og loks, Mount Everest – eða Hvannadalshnúkur – íslenskrar tungu sumarið 2018: Lifa og njóta. Á Facebook eru allir að lifa og njóta: Horfi á sólarlagið #lifaognjóta. Bera tærnar á sólarströnd við Miðjarðarhafið #lifaognjóta. Sit á dollunni án þess að börnin standi bankandi á baðherbergishurðina #lifaognjóta.

 

Peningar og hamingjan

Sagt er að peningar kaupi ekki hamingju. Það er hins vegar rangt. Rannsóknir sýna að hægt er að kaupa sér hamingju kaupi maður lífsreynslu en ekki hluti.

Afmæli dótturinnar hittir á sumarfrí fjölskyldunnar í Portúgal. Sú stutta hefði eflaust viljað fagna áfanganum með veislu og tilheyrandi pakkaflóði á hamfarasvæðinu. En þegar maður er fimm er maður undirorpinn geðþótta foreldra sinna, duttlungafullri lífsspeki þeirra og örvæntingarfullum tilraunum þeirra til að vera ekki halló.

Í stað þess að lifa og neyta í tilefni dagsins eins og venjan er fær dóttir mín lexíu í fimm ára afmælisgjöf, klisju sem tröllríður nú íslenskri tungu: Í dag verður henni kennt „að lifa og njóta“. Afmælisgjöfin verður ferð á ströndina og kannski íspinni.

Vonandi verður mér fyrirgefið.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×