Erlent

Fjórði hlýjasti júlímánuðurinn frá upphafi mælinga

Kjartan Kjartansson skrifar
Evrópubúar hafa mátt þola mikinn hita í sumar.
Evrópubúar hafa mátt þola mikinn hita í sumar. Vísir/EPA
Meðalhiti jarðar í júlí var sá fjórði hæsti sem mælst hefur frá seinni hluta 19. aldar. Samkvæmt mælingum Haf- og loftslagsstofnunar Bandaríkjanna (NOAA) hefur hitinn í júlí verið yfir meðaltali í 42 ár í röð.

Fyrstu sjö mánuðir ársins voru jafnframt þeir fjórðu hlýjustu frá því að mælingar hófust upp úr 1880, að því er segir í frétt á vef NOAA. Níu af tíu hlýjustu júlímánuðunum hafa allir verið eftir árið 2005. Sá hlýjasti var árið 2016 þegar El niño-veðurfyrirbrigðið lagðist ofan á hnattræna hlýnun af völdum manna.

Alls hafa nú 403 mánuðir í röð verið yfir meðaltalshita 20. aldar.

Sums staðar var hitinn í júlí enn meiri en meðaltalið. Þannig voru hitamet slegin í Skandinavíu, Norður-Íshafinu, norðvesturhluta Afríku og í hluta sunnanverðrar Asíu. Í Evrópu var júlímánuður sá annar hlýjasti frá því að mælingar fyrir alla álfuna hófust árið 1910.

Á sama tíma var útbreiðsla hafíssins á norðurskautinu 13,2% minni en meðaltal áranna 1981-2010. Það er níunda minnsta útbreiðsla hans á þessum árstíma frá því að gervihnattamælingar hófust árið 1979.

Við Suðurskautslandið var útbreiðsla hafíssins aðeins undir meðaltali og sú áttunda minnsta í júlí frá upphafi mælinga.

Kort af jörðinni sem sýnir frávik frá meðalhita fyrstu sjö mánuði ársins.NOAA

Tengdar fréttir

Mesti hiti í 262 ár

Á meðan við hér uppi á Íslandi kvörtum yfir kulda og votviðri fárast frændur okkar í Svíþjóð yfir hita og rigningarleysi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×