Þegar dregið var í riðla fyrir Meistaradeild Evrópu í gær voru einnig veitt verðlaun fyrir síðasta tímabil í keppnum UEFA. Modric var valinn besti leikmaðurinn og besti miðjumaðurinn. Ronaldo var valinn besti sóknarmaðurinn.
Mendes, sem er umboðsmaður Ronaldo, var brjálaður yfir því að Ronaldo skildi ekki hafa verið valinn bestur. Ronaldo skoraði 15 mörk í keppninni Meistaradeildinni á síðasta tímabili og var markahæstur allra.
„Fótbolti er leikinn á vellinum og þar vann Cristiano. Hann skoraði 15 mörk og bar Real Madrid á herðum sér og vann Meistaradeildina aftur,“ sagði Mendes við portúgalska miðilinn Record.
„Þetta er fáránlegt og til skammar. Það er engin spurning að sigurvegarinn er Ronaldo, hann er bestur í sinni stöðu.“
Verðlaunin eru gefin út eftir kosningu á meðal þjálfara og blaðamanna í allri Evrópu. Modric fékk 313 atkvæði, 90 atkvæðum meira en Ronaldo.
Ronaldo yfirgaf Real í sumar og gekk til liðs við Juventus. Hans nýja lið lenti í riðli með Manchester United, Valencia og Young Boys.