Innlent

Neitaði að borga reikninginn og stal víninu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Mikill þorsti virðist hafa gripið manninn á útleiðinni.
Mikill þorsti virðist hafa gripið manninn á útleiðinni. vísir/getty
Lögreglan var kölluð að veitingastað í miðborginni í nótt vegna ölvaðs manns sem verið hafði til vandræða. Maðurinn er sagður hafa verið með dólgslæti inn á veitingastaðnum og neitað að borga reikninginn sem honum var færður.

Þess í stað hafi maðurinn rokið á dyr án þess að greiða skuldir sínar og á leiðinni út hafi hann kippt með sér flösku af borðinu. Ætla má að þar hafi verið um vínflösku að ræða því maðurinn var sem fyrr segir orðinn talsvert ölvaður þegar þarna var komið við sögu.

Maðurinn komst þó ekki langt með flöskuna því lögreglan segist hafa handsamað hann og flutt í næsta fangaklefa.

Hann var þó ekki eini ölvaði maðurinn sem komst í kast við lögin í miðborginni í nótt. Lögreglumenn eru til að mynda sagðir hafa veitt áberandi drukknum karlmanni á reiðhjóli nokkra athygli því hann hafi átt „erfitt með að valda hjólinu sökum ölvunar.“

Í sömu andrá er kona sögð hafa komið hlaupandi til lögreglumannanna og tilkynnt þeim að drukkni hjólreiðamaðurinn hafi í raun stolið hjólinu sínu. Sá ölvaði var því stöðvaður af lögreglu og vistaður í fangaklefa. Hjólið komst að sama skapi aftur til síns heima.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×