Jón er á mála hjá enska úrvalsdeildarliðinu Fulham en var lánaður til Vendyssel í dönsku B-deildinni í síðustu viku þar sem að hann fær nú að spila reglulega alvöru fótbolta. Hann hefur verið fastamaður í varaliði Fulham og verið einn besti leikmaður þess liðs.
„Maður var orðinn svolítið þreyttur á þessum varaliðsbolta. Það er gott að komast í umhverfi þar sem maður sér fram á að spila með aðallinu og geta komið ferlinum af stað. Ég er mjög sáttur og jákvæður á framhaldið,“ segir Jón Dagur sem taldi sig þurfa að fara núna.
Hat-trick hero @jondagur when @FulhamFC U23 won @Wolves U23 4-1. #TeamTotalFootballpic.twitter.com/7prBMA9EUO
— Total Football (@totalfl) October 24, 2017
„Um leið og að liðið fór upp í úrvalsdeildina vissi ég strax að ég þyrfti að fara á lán til að spila einhvern bolta. Fulham fékk fullt af peningum fyrir að komast upp og pressan er mikil þannig að það er erfitt að fá sénsinn fyrst í úrvalsdeildinni. Ég þurfti því að fara annað til að fá séns,“ segir Jón Dagur.
Jón Dagur hefur leikið með unglingalandsliðum Íslands nær allan sinn feril og nú eru nýir tímar hjá A-landsliðinu. Stökkið upp í það fyrir öfluga vængmenn er kannski ekkert svo stórt ef hann nýtir sín tækifæri í Danmörku.
„Maður kemst ekkert í A-landsliðið ef maður er að spila einhvern varaliðsbolta. Ég leit á þetta þannig að ég þyrfti að koma mér í aðalliðsbolta til að vera inn í myndinni. Maður þarf samt að spila fyrst og sjá hvað gerist,“ segir Jón Dagur Þorsteinsson.