Erlent

Segja mögulegt að skemmdarverk hafi verið unnið á geimstöðinni

Samúel Karl Ólason skrifar
Yfirmaður geimferðastofnunar Rússlands, Roscosmos, segir koma til greina að gat sem fannst á alþjóðlegu geimstöðinni hafi verið gert vísvitandi.
Yfirmaður geimferðastofnunar Rússlands, Roscosmos, segir koma til greina að gat sem fannst á alþjóðlegu geimstöðinni hafi verið gert vísvitandi. Vísir/AP
Yfirmaður geimferðastofnunar Rússlands, Roscosmos, segir koma til greina að gat sem fannst á alþjóðlegu geimstöðinni hafi verið gert vísvitandi. Það hafi verið borað og þá jafnvel af einum af geimförum geimstöðvarinnar. Gatið fannst á rússnesku geimfari sem er áfast stöðinni og ógnaði það aldrei lífi geimfaranna.



Þeir fundu það tiltölulega fljótt eftir að í ljós kom að þrýstingur um borð í geimstöðinni hafði lækkað og lokuðu því með sérstöku límbandi.

Talið hafði verið að gatið hefði myndast eftir að lítill loftsteinn eða geimrusl hefði lent á geimstöðinni.

Dmitry Rogozin, yfirmaður Roscosmos, segir að gatið hafi verið borað og þá annað hvort á jörðinni eða út í geimi. Hann segir nokkrar tilraunir hafa verið gerðar og að svo virðist sem að stressaður maður hafi haldið á borvélinni.

„Við erum að kanna hvort þetta gerðist á jörðinni en við útilokum ekki að þetta hafi verið gert út í geimnum,“ sagði Rogozin, samkvæmt AFP fréttaveitunni. Enn fremur segir að hann að rannsóknarnefnd verði stofnuð og hennar verkefni verði að finna sökudólginn.

Sá hluti geimfarsins sem gatið fannst á verður ekki notaður til að flytja geimfara aftur til jarðarinnar. Þá eru Rússar að skoða önnur geimför á jörðu niðri. Bæði þau sem eru í framleiðslu og þau sem eru tilbúin til geimskota.

Sex geimfarar eru nú í geimstöðinni. Þrír þeirra eru frá Bandaríkjunum, tveir eru frá Rússlandi og einn er frá Þýskalandi.

 


Tengdar fréttir

Leki kom á Alþjóðlegu geimstöðina

Örlítil sprunga er talin hafa komið á Soyuz-geimfar sem liggur upp við rússneska hluta geimstöðvarinnar af völdum geimörðu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×