Ákæra yfir manninum, sem fréttastofa hefur undir höndum, var þingfest í Héraðsdómi Suðurlands í gærmorgun. Er maðurinn ákærður fyrir húsbrot, þjófnað, tilraun til þjófnaðar, líkamsárás og umferðarlagabrot. Honum er gefið að sök að hafa föstudaginn 18. júní farið inn í ólæst hús á Eyrarbakka og stolið þar peningum að verðmæti 85 þúsund krónur úr veski íbúa hússins, 300 evrum úr pyngju húsráðanda, myndavél og 40 þúsund krónum í eigu foreldrafélags barnaskóla Eyrarbakka og Stokkseyrar.
Sjá einnig: Maður í haldi vegna húsbrota á Vesturlandi og allar tengingar kannaðar
Sex þúsund krónur úr barnaveski
Fjórum dögum síðar, þann 22. júní, á maðurinn að hafa farið inn í ólæst hús á Þorlákshöfn og stolið þar skartgripum úr læstu skartgripaskríni og lausafé. Daginn eftir er manninum gefið að sök að hafa stolið fjölmörgum skartgripum úr ólæstu húsi á Hellissandi: fjórum gullúrum, gullarmbandi og barmnælu í eigu húsráðenda. Þá á þjófurinn einnig að hafa tekið 6000 krónur úr barnaveski.Þremur dögum síðar gerði maðurinn tilraun til þjófnaðar á Fáskrúðsfirði og fór þar inn í ólæst hús. Þar kom húsráðandi að manninum og er þeim síðarnefnda gefið að sök að hafa slegið húsráðanda í kviðinn, líkt og greint var frá á sínum tíma. Maðurinn og faðir hans reyndu því næst að komast undan lögreglu á bíl.
Hafnaði utanvegar við eftirför
Lögregla veitti bíl þeirra eftirför og gerði honum að endingu fyrirsát í Breiðdal, þar sem bíllinn hafnaði utan vegar. Maðurinn er ákærður fyrir umferðarlagabrot er hann virti að vettugi fyrirmæli lögreglu um að stöðva bifreiðina í umrætt skipti.Feðgarnir voru úrskurðaðir í tveggja vikna gæsluvarðhald eftir að þeir voru handteknir í júní. Maðurinn sem nú hefur verið ákærður virðist þó hafa haldið áfram að brjótast inn í hús en samkvæmt frétt RÚV var hann handtekinn á fimmtudag með þýfi úr húsbrotum á Hellissandi og Grundarfirði. Vísir greindi frá því á föstudag að maður væri í haldi vegna innbrotanna.