Fótbolti

Stelpurnar ekki á topp 20 á heimslistanum í fyrsta sinn í eitt ár

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir var einni vítaspyrnu frá því að koma Íslandi í umspilið.
Sara Björk Gunnarsdóttir var einni vítaspyrnu frá því að koma Íslandi í umspilið. vísir/daníel
Stelpurnar okkar í kvennalandsliðinu í fótbolta falla um þrjú sæti á nýjum heimslista FIFA sem birtur var í morgun en okkar konur eru í 22. sæti listans.

Þetta er í fyrsta sinn í rúmt ár sem íslenska kvennalandsliðið er ekki á meðal þeirra 20 bestu í heiminum en þær voru í 21. sæti á listanum sem birtur var 1. september 2017.

Stelpurnar okkar komust í 20. sætið í desember 2017 og voru í 19. sæti á listunum í mars og júní á þessu ári. Nú eru þær komnar niður fyrir topp 20 í 22. sætið á eftir Austurríki en á undan Belgíu.

Ísland tapaði fyrir Þýskalandi og gerði jafntefli við Tékkland í síðustu tveimur leikjunum í undankeppni HM 2019 og komst ekki í umspil um sæti á mótinu sem fram fer í Frakklandi á næsta ári.

Íslenska liðið er í 13. sæti á Evrópulistanum en næsta stóra verkefni stelpnanna okkar er undankeppni EM 2021 sem fram fer á Englandi.

Bandaríkin halda toppsætinu og Þjóðverjar eru í öðru sæti eins og á síðasta lista en enska landsliðið fer upp í þriðja sætið á kostnað Frakklands. Kanada er í fimmta sæti.

Allan listann má sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×