Innlent

Leita að fingraförum innbrotsþjófanna

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur enn ekki fundið innbrotsþjófana.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur enn ekki fundið innbrotsþjófana. visir/vilhelm
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu er ekki búin að finna innbrotsþjófana sem bökkuðu ítrekað á verslunina Adam og Evu við Kleppsveg og óku á brott með varning úr versluninni. Þetta gerðist á sjöunda tímanum í gærmorgun. Lögregla fann bílinn síðdegis í gær í bílastæði við Glæsibæ auk kynlífsdúkku sem innbrotsþjófarnir höfðu með sér á brott.

Tæknideild lögreglunnar leitaði í morgunsárið að fingraförum í og utan á bílnum og á vörum sem voru í honum. Guðmundur Páll Jónsson, lögreglufulltrúi hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir að niðurstöðu sé að vænta frá tæknideild skömmu eftir helgi.

Hann segir að grunur leiki á að bíllinn, Hyundai i10, sem notaður var til verknaðarins sé sá hinn sami og var stolið í Vesturbænum í síðustu viku. Innbrotsþjófarnir höfðu stolið skráningarnúmeri bílaleigubíls og fest á bílinn sem notaður var til að keyra á verslunina til að villa um fyrir lögreglu.

Guðmundur segir að af myndskeiði úr eftirlitsmyndavél að dæma sé um tvær stúlkur að ræða. Hann segir ennfremur að það sé alveg ljóst að lögregla muni finna innbrotsþjófana.

Vísir greindi frá innbrotinu í gær en þjófarnir drösluðu kynlífsdúkku út úr búðinni auk annars varnings og óku á brott. Kynlífsdúkkan er metin á 350 þúsund krónur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×