Gamanleikarinn Jack Black fékk sína eigin stjörnu í Hollywood í vikunni. Black fannst ekkert sérstaklega leiðinlegt að allir væru komnir til að heiðra hann og var í banastuði. Hann hélt nokkuð tilfinningaþrungna ræðu þar sem hann fór yfir ferilinn. Í lokin þakkaði hann kærlega fyrir sig og þakkaði fjölskyldu og vinum áður en hann gerði örlítið hlé. Þá hlóð hann í: „Ég elska ykkur öll. Nema Donald Trump. Hann er rasshaus,“ og gekk burt.
Stjarna Blacks er númer 2.645 á hinni svokölluðu Walk of Fame gangbraut um Hollywood. Þar má finna allar helstu stjörnur kvikmyndanna í gegnum árin. „Mig hefur langað í svona stjörnu frá því ég var lítill gutti. Þegar ég var lítill hugsaði ég að ef ég fengi svona væri ég búinn að slá í gegn. Og svo ég vitni til ódauðlegra orða Axl Rose: Where do we go now?“ spurði Black í ræðu sinni.
Þar vitnaði hann í lag Guns N' Roses, Sweet Child of mine, sem varð þeirra fyrsta lag til að náð toppsæti Billboard-listans.
