Innlent

Sjómenn sameinast í kjarabaráttu

Sveinn Arnarsson skrifar
Sjómenn hafa verið tvístraðir í fjölda félaga undanfarna áratugi. Nú er mál að linni að mati fjölmargra sjómanna.
Sjómenn hafa verið tvístraðir í fjölda félaga undanfarna áratugi. Nú er mál að linni að mati fjölmargra sjómanna. Fréttablaðið/Eyþór
Fjölmörg stéttarfélög sjómanna hafa undirbúið sameiningu til að standa betur að vígi í baráttu sinni fyrir bættum kjörum. Unnið hefur verið að því undanfarna mánuði og farið að sjást í land í viðræðum félaganna. Sjómenn eru nú í um 20 stéttarfélögum vítt og breitt um landið og slagkraftur sjómanna hefur því verið takmarkaður í kjarabaráttu þeirra.

Þau félög sem undirbúa sameiningu eru Sjómannafélag Íslands, Sjómannafélag Eyjafjarðar, Sjómanna- og vélstjórafélag Grindavíkur, Sjómannafélag Hafnarfjarðar og Jötunn. Von er á að fleiri stökkvi á bátinn og verði með í áhöfn þessa nýja stéttarfélags sjómanna. Markmið sameiningarinnar er að skapa stórt og stöndugt stéttarfélag sjómanna og styrkja með því bakland þeirra. Nýtt félag yrði langstærsta stéttarfélag sjómanna.

„Þessi vinna hefur verið í gangi í talsverðan tíma enda hefur það verið okkar skoðun að það sé margfalt vænlegra til árangurs að búa til stórt og öflugt félag til að standa að baki sjómönnum þessa lands,“ segir Bergur Þorkelsson, gjaldkeri Sjómannafélags Íslands.  „Með þessu móti getum við sameinað krafta okkar og þannig skapað grundvöll til að setja gríðarlega innspýtingu í allt okkar starf, ekki síst þær kjarasamningsviðræður sem fram undan eru við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×