Körfubolti

Íslandsmeistararnir töpuðu fyrir nýliðunum

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Rósa Björk Pétursdóttir
Rósa Björk Pétursdóttir vísir/bára dröfn
Haukar byrjuðu titilvörnina í Domino's deild kvenna á því að tapa fyrir nýliðum KR á heimavelli. Valur vann stórsigur og Snæfell vann í tvíframlengdum leik í Smáranum.

Haukar fengu nýliða KR í heimsókn í Schenkerhöllina í Hafnarfirði. Bandaríkjamaðurinn Kiana Johnson fór mikinn í leiknum og skoraði 32 stig. Samlanda hennar í Haukaliðinu Lele Hardy gerði 28 stig og tók 15 fráköst.

Fyrri hálfleikur var nokkuð jafn og var staðan jöfn í hálfleiknum 33-33. Eftir þriðja leikhluta var KR tveimur stigum yfir en tókst að stíga fram úr í þeim fjórða, lokatölur 59-67.

Í Smáranum var háspennuleikur þegar Breiðablik og Snæfell mættust. Heimakonur, sem voru nýliðar á síðustu leiktíð, voru yfir eftir fyrsta leikhluta og leiddu 23-21 í hálfleik.

Þær voru með sex stiga forystu eftir þriðja leikhlutann en Snæfell náði að jafna leikinn sem endaði 63-63 og þurfti því að framlengja. Eftir eina framlengingu var enn jafnt 74-74.

Þegar mest á reyndi í lok seinni framlengingarinnar náðu Blikarnir ekki að koma boltanum í körfuna, leik lauk með 80-93 sigri Snæfells.

Kristen McCarthy setti 34 stig fyrir Snæfell og Angelika Kowalska 17. Hjá Blikum var Bryndís Hanna Hreinsdóttir atkvæðamest með 21 stig.

Valur, sem lék til úrslita í vor, vann tuttugu stiga sigur á Skallagrímskonum í Origohöllinni á Hlíðarenda. Gestirnir úr Borgarnesi voru yfir eftir fyrsta leikhluta og leiddu í hálfleik 29-33.

Í seinni hálfleik náðu Valskonur fljótlega að jafna, þær skelltu í lás í vörninni og skoraði Skallagrímur aðeins níu stig í þriðja leikhluta. Lokatölur urðu 71-51.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×