Innlent

Segja ásakanir miðstjórnar ASÍ innihaldslausar

Atli Ísleifsson skrifar
Vinnumálastofnun segir ASÍ fullkunnugt um að stofnunin hafði hvorki lagaheimildir né lagaleg úrræði til að hafa afskipti af starfsemi fyrirtækisins hér á landi.
Vinnumálastofnun segir ASÍ fullkunnugt um að stofnunin hafði hvorki lagaheimildir né lagaleg úrræði til að hafa afskipti af starfsemi fyrirtækisins hér á landi. Vísir/Vilhelm
Vinnumálastofnun hefur lýst yfir undrun sinni á ályktun miðstjórnar ASÍ frá í dag þar sem stofnunin er sökuð um að hafa látið hjá líða að nota þau laga­legu úrræði sem stofn­un­in hef­ur til þess að stöðva „ólög­lega starf­semi“ Pri­mera Air Nordic hér landi.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu  frá Gissuri Péturssyni, forstjóra Vinnumálastofnunar, sem send var á fjölmiðla nú síðdegis. Þar er lýst yfir undrun á þeim „aðdróttunum og innihaldslausu ásökunum sem þar eru settar fram í garð stofnunarinnar“.

Miðstjórn ASÍ tekur fram að Flugfreyjufélag Íslands og ASÍ hafi undanfarin ár „leitast við að stöðva ólöglega starfsemi Primera Air Nordic og félagsleg undirboð þess á íslenskum vinnumarkaði“. Starfsemin hefur nú stöðvast vegna greiðsluþrots.

Með ólíkindum

Í yfirlýsingu Vinnumálastofnunar kemur fram að ASÍ ýji að því að stofnunin beri ábyrgð á þeim aðstæðum sem áhafnarmeðlimir hjá Primera Air Nordic og flugfarþegar eru nú í um allan heim. Fullyrðingarnar séu með ólíkindum.

„ASÍ var fullkunnugt um að Vinnumálastofnun hafði hvorki lagaheimildir né lagaleg úrræði til að hafa afskipti af starfsemi fyrirtækisins hér á landi.

Stofnunin hefur tekið þátt í samstarfi m.a. með aðilum vinnumarkaðarins um nauðsynlegar breytingar á lögum í þeim tilgangi að sporna gegn félagslegum undirboðum. Hafa þær breytingar meðal annars snúið að því að auka eftirlitsheimildir Vinnumálastofnunar, t.d. með heimild til að leggja á sektir á fyrirtæki sem veita ekki umbeðnar upplýsingar og/eða verða við öðrum kröfum stofnunarinnar.

Vinnumálastofnun hafnar þeim ásökunum sem fram koma í nefndri ályktun um að hún sinni ekki lögboðnu eftirliti sínu á vinnumarkaði. Þvert á móti sinnir hún eftirlitsstarfi sínu ein sem og í samstarfi við aðra opinbera aðila auk aðila vinnumarkaðarins.

Orðræða af þessu tagi er því miður ekki til þess fallin að styrkja baráttuna gegn ólíðandi framgöngu á íslenskum vinnumarkaði,“ segir í yfirlýsingu Vinnumálastofnunar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×