Varðstjóri hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins ræddi við Vísi að slökkvistarfi loknu í gær en hann sagði að erfiðlega hefði gengið að komast að eldinum sem var í klæðningu hússins. Sagði varðstjórinn að eldurinn virtist loga í timbri sem var þar undir.
Vill nánari útskýringu frá byggingarfulltrúa
Bjarni Kjartansson, sviðsstjóri forvarnasviðs slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, sagði í fréttum Stöðvar 2 í gær að krossviðarrenningar og pappi hefðu verið notaðir til að klæða húsið og það efni hefði brunnið vel.
Spurður hvort gerð verði krafa um að klæðningin verði öll fjarlægð segir Bjarni það koma til skoðunar.
Forstjóri hefur áhyggjur vegna Grenfell-brunans
Björn Karlsson, forstjóri Mannvirkjastofnunar, segist ætla að ræða við byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar og eldvarnaeftirlit slökkviliðsins til að komast að því hvar mistökin liggja.
Setja einangrun á byggð hús í nafni orkunýtingar
Hann segir það færast sífellt í aukana að eigendur húsa vilji setja einangrunarefni utan á þau til að auka orkunýtingu.„Þarna viljum við hjá mannvirkjastofnun að menn fari mjög varlega og menn skoði mjög gaumgæfilega hvort efni séu brennanleg eða ekki. Við munum fylgjast með þessu ásamt byggingarfulltrúa og eldvarnaeftirliti því þetta er mjög mikilvægt málefni og full ástæða til út af þessum atburðum í Bretlandi.“
Jóhann Karl Þórisson, yfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við Vísi að lögreglan hafi þrjá undir grun vegna íkveikjunnar. Þeir sáust bera elda að Laugalækjarskóla en spurður um aldur þeirra segir Jóhann að grunur sé um að þeir séu undir átján ára aldri, án þess að geta staðfest það.