Skoðun

Byggjum fleiri íbúðir

Sigurður Hannesson skrifar
Engum dylst það ástand sem nú ríkir á húsnæðismarkaði. Landsmönnum hefur fjölgað hraðar í góðæri undanfarinna ára en spáð var en íbúðum hefur ekki fjölgað að sama skapi. Húsnæðisverð hefur hækkað umfram launaþróun síðustu ár, leiguverð hefur að sama skapi hækkað og erfiðara er fyrir nýja kaupendur að eignast sína fyrstu íbúð. Lausnin á þessum vanda er ljós. Eina raunhæfa leiðin til að bæta úr þessari stöðu er að byggja fleiri íbúðir, auka framboðið.

Of fáar íbúðir voru byggðar á undanförnum árum. Á árunum 2010-2017 voru 2.400 íbúðir byggðar í Reykjavík, stærsta sveitarfélagi landsins, eða um 300 íbúðir á ári að meðaltali. Svipaða sögu má segja um önnur sveitarfélög. Í fyrra voru 6 nýir íbúar í landinu um hverja nýja íbúð og á árinu 2016 voru þeir 4. Þess vegna er uppsafnaður vandi og hefur Íbúðalánasjóður metið að þúsundir íbúða vanti á markaðinn til viðbótar við þær íbúðir sem þarf að byggja á hverju ári til að halda í við fjölgun landsmanna.

Með einföldun á regluverki er hægt að byggja hagkvæmari íbúðir. Hér á landi er ferli við byggingarframkvæmdir flóknara en á Norðurlöndunum, fleiri skref þarf að taka hér en þar. Þá gerir regluverkið ráð fyrir sömu kröfum hvort sem um ræðir einföld mannvirki eða flókin þegar kemur að byggingareftirliti. Þannig er sama ferli við að byggja einbýlishús og hátæknisjúkrahús svo dæmi sé tekið. Í öðrum löndum hefur verið tekið tillit til þessa og svo á einnig að gera hér á landi.

Sveitarfélögin eiga að stuðla að uppbyggingu hagkvæmra íbúða. Skipulagsmál eru eitt af mikilvægari málum sem sveitarstjórnir hafa á sinni könnu og þar með hafa sveitarfélögin talsvert um það að segja hvers konar íbúðir eru byggðar og hvar. Það segir sig sjálft að dýrar íbúðir eru ekki hugsaðar sem fyrstu kaup.

Ráðast þarf að rótum vandans og byggja fleiri íbúðir. Það verður ekki gert nema með samhentu átaki ríkis, sveitarfélaga, byggingariðnaðar og aðila vinnumarkaðar. Iðnaðurinn er tilbúinn.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×