Vefsíðan tekjur.is fór í loftið í gær en þar er hægt að fletta upp upplýsingum um laun allra Íslendinga, sem náð hafa fjárræðisaldri, fyrir árið 2016. Upplýsingarnar á síðunni byggjast ekki á álagningarskrá RSK heldur skattskrá en hún inniheldur álagðan tekjuskatt hvers gjaldanda eftir að leyst hefur verið úr öllum kærum sem berast vegna álagningarskrár. Upplýsingarnar á síðunni sýna því ekki tekjur síðasta árs heldur ársins 2016.
„Þetta kom okkur jafn mikið á óvart og flestum öðrum. Þetta er ekki á vegum RSK og okkur algjörlega óviðkomandi,“ segir Snorri Olsen ríkisskattstjóri. Hann segir að starfsfólk stofnunarinnar hafi fengið fregnir af málinu í fjölmiðlum líkt og flestir aðrir.
Aðspurður hvort vinnsla sem þessi úr skattskrá sé heimil segir Snorri að það sé í skoðun. Það liggi fyrir í tekjuskattslögum að opinber birting á upplýsingum um álagða skatta samkvæmt skattskrá sé heimil en ekki liggi ljóst fyrir hvort hver sem er hafi þá heimild. Þá þurfi einnig að skoða málið í samhengi við nýju persónuverndarlögin, GDPR, sem tóku gildi á árinu. Að auki þurfi að skoða birtingarháttinn en netið var ekki í huga þingsins árið 1984 þegar lögin voru sett.
Mál er varða birtingu álagningar- og skattskrár hafa bæði ratað til eftirlitsstofnana sem og dómstóla. Í áliti umboðsmanns Alþingis frá 1995 kom meðal annars fram að „ótvírætt og óumdeilt“ væri að heimilt væri að birta upplýsingar úr skattskrá. Aðrar reglur giltu hins vegar um álagningarskrár. Árið 2013 komst PSV síðan að þeirri niðurstöðu að CreditInfo væri óheimilt að afrita upplýsingar úr skattskrá með það að markmiði að selja áskrifendum sínum upplýsingarnar. Í gegnum tíðina hafa skattskrár síðan verið gefnar út á bókarformi en téðir útgefendur hafa getað farið til RSK, fengið skrána afhenta, afritað hana og gefið út.

Félagið Viskubrunnur ehf. stendur að baki síðunni en félagið var upphaflega í eigu KPMG Legal, dótturfyrirtækis KPMG. Í svari frá fyrirtækinu segir að KPMG stofni félög og selji þau viðskiptavinum og Viskubrunnur sé slíkt félag. Eftir að söluna beri KPMG enga ábyrgð.
Fréttablaðið reyndi ítrekað að ná í Jón Ragnar Arnarson, stjórnarmann Viskubrunns og starfsmann A4, og Víði Pétursson, varamann í stjórn, prókúruhafa félagsins og útgefanda þingeyska miðilsins Skarps, bæði í síma og með tölvupósti. Engin svör fengust.